144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fjarvera formanna stjórnarflokkanna vekur sannarlega upp margar spurningar. Ég velti fyrir mér hvort það geti verið að þeir séu saman á fundi að fara yfir það hvernig samþykktir Framsóknarflokksins samrýmist ríkisfjármálaáætluninni sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram hér fyrir helgi. Það er skiljanlegt að hæstv. forseti hafi óskað eftir því að þeir væru hér, annar hvor eða báðir, eftir þetta langa hlé vegna þess að það eru margar spurningar sem við þurfum að fá svör við. Ein spurningin varðar það að verið er að tala um nýja áætlun um afnám hafta og að þar eigi að koma stöðugleikaskattur, ef ég man orðið rétt. Er það útgöngugjaldið sem talað er um í áætlun sem Seðlabankinn lagði fram í mars 2011? Er samasemmerki með útgöngugjaldinu og þessum stöðugleikaskatti (Forseti hringir.) sem verið er að tala um? Við hv. þingmenn getum ekki (Forseti hringir.) einu sinni tjáð okkur um þetta vegna þess að þeir mæta ekki hér, (Forseti hringir.) herrarnir, til að svara svona einföldum spurningum.