144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Já, samkvæmt þingsköpum getur ráðherra gefið munnlega skýrslu og forseti þingsins getur líka heimilað og skipulagt að það sé sérstök yfirlýsing. Þessi verkfæri eru til staðar, sama hvort forseti þingsins ákveður að beita þeim eða forsætisráðherra sjálfur að koma fram. Við verðum að fá skýrari svör um hvað það þýðir sem hann nefndi um afnám hafta, hvort þetta sé stefnubreyting eða hvað, eða hvort hann ætlar ekki að upplýsa okkur um það af því að enn sé í gangi strategísk vinna en þá þurfum við að fá mjög skýr svör í samráðsnefnd um afnám hafta sem þingmenn í öllum flokkum sitja í. Þar hefur ekki verið fundað lengi. Það á víst að vera fundur í þessari viku. Við hlökkum til að heyra hvort um stefnubreytingu sé að ræða en þetta verður að vera miklu skýrara. Meðan þetta er óskýrt verður mögulegt sundurlyndi hjá okkur sem við verðum að passa. Við verðum að reyna að vera meira samstiga og samtaka, en það er mjög (Forseti hringir.) erfitt þegar þetta er allt svona (Forseti hringir.) óskýrt. Að sjálfsögðu hefur fólk áhyggjur af þessu stóra máli. Við þurfum að fá (Forseti hringir.) skýr svör og við þurfum að fá þau sem fyrst.