144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir að það er kannski ekki besti bragur á því að báðir forustumenn ríkisstjórnarflokkanna séu fjarverandi í dag. Ég verð hins vegar að segja fyrir hönd míns flokks og míns formanns að hann hefur að jafnaði verið tilbúinn að ræða mál hvar og hvenær sem er þó að þannig bregði við á þessum degi að hann þurfi að vera á fundi úti í bæ. Hann var á þingflokksfundi með okkur sjálfstæðismönnum til klukkan tvö en þurfti að fara á fund með mönnum vegna gjaldeyrishaftanna klukkan tvö — með fólki úti í bæ. Hins vegar verð ég að segja, hv. þingmenn og hæstv. forseti, að ég hef engan áhuga á að ræða í þingsal landsfundarályktanir Framsóknarflokksins eða landsfundarályktanir Samfylkingarinnar sem nýlega lauk fundi sínum. Þær eru ekki þingskjöl. Flokkar geta ályktað hvað sem þeir vilja úti í bæ. (Gripið fram í: … forsætisráðherra …) Komi það hér inn kemur það í formi þingmáls en að ég ætli að standa í ræðustól og ræða við framsóknarmenn um ályktanir þeirra á flokksfundi (Forseti hringir.) — það hvarflar bara ekki að mér.