144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:26]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Flestir þeirra sem hlustuðu á ræðu formanns Framsóknarflokksins um helgina veltu fyrir sér á hvaða plánetu sá maður væri staddur. Ég ætla að láta mér duga hér undir þessum lið að spyrja: Hvar er forsætisráðherra? Er ekki sjálfsagt að upplýst sé um það hvaða fundur það er sem er mikilvægari en það að hitta hér þingið og útskýra enn og aftur, vegna þess að það er endurtekið þema þessa kjörtímabils, hvað nákvæmlega hæstv. forsætisráðherra átti við með orðum sínum? Um hvað er verið að tala?

Nú er að teiknast upp sú mynd enn og aftur að hér er á ferðinni svo ævintýralega léleg ríkisstjórn að annað eins hefur ekki sést í stjórnmálasögu Íslands. Það er algerlega ótækt eftir slíkar yfirlýsingar að menn komi ekki hér í þingið og útskýri hvað átt er við, leggi fram upplýsingar (Forseti hringir.) … þannig að menn geti rætt (Forseti hringir.) þær svo við séum ekki sífellt föst í þeim (Forseti hringir.) hjólförum að vera að velta fyrir okkur hvert menn (Forseti hringir.) eru að fara hér sem stjórna landinu.