144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get að nokkru leyti tekið undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að ég hef engan óskaplegan áhuga á því að að sökkva mér í innri samþykktir Framsóknar, en þó ætla ég nú að það komi henni meira við en mér þar sem um er að ræða samstarfsflokkinn í ríkisstjórn og þarna er m.a. ályktað um stjórnarfrumvörp. Ég tel að forseti hafi gert vel í upphafsorðum sínum að leggja í raun til að Alþingi héldi sínu striki með starfsáætlun sína og léti framgöngu ríkisstjórnar ekki trufla það. Það mun að vísu þurfa miklu skipulags- og forgangsröðunarvinnu til ef það á að ganga skaplega miðað við hversu seint og illa mál hafa komið frá ríkisstjórn, þar á meðal gusa af málum eftir 31. mars. Vantar þó enn upp á mál sem við söknum sárlega, eins og samgönguáætlun og ýmislegt sem þingið þarf að takast á við og afgreiða ef vel á að vera.

Það er auðvitað undrunarefni að forsætisráðherra skuli ekki vera hér í dag. Hann er þó sannarlega í landinu. Fjármálaráðherra hefur að undanförnu talað frá Flórída, en það er gott ef hann er líka kominn heim eins og hér var upplýst. (Forseti hringir.) Við fáum þá væntanlega að sjá meira af þeim á næstu dögum.