144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér hefur komið fram að bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra verða í fyrirspurnatíma á fimmtudaginn. Þessi umræða hefur vakið upp hjá mér hugsanir um gamla hugmynd sem ég reifaði hér eitt sinn, að það yrði komið á nýju fyrirkomulagi um fyrirspurnatíma til ráðherra og að við horfðum jafnvel til þess að það yrðu sérstakir fyrirspurnatímar til forsætis- og fjármálaráðherra ef það væri tveggja flokka stjórn eða til þeirra ráðherra sem væru í forustu fyrir þá flokka sem mynduðu samsteypuríkisstjórn, eitthvert annað slíkt fyrirkomulag, þannig að þá væri fastur slíkur tími fyrir slíkar fyrirspurnir. Almennt hefur sú regla verið hér í gangi að það sé horft til þess að ráðherrar séu til svara að minnsta kosti einu sinni í viku. Það eru tveir fyrirspurnatímar í hverri viku og ráðherrar hafa reynt að tryggja að þeir sætu að lágmarki einu sinni í hverri viku fyrir svörum.

Nú liggur fyrir, virðulegi forseti, að þessir báðir hæstv. ráðherra verða í þinginu á fimmtudaginn. Ég skil vel óþolinmæðina og kannast við þetta sjálfur þegar ég var í stjórnarandstöðu, en ég man reyndar líka fjölmörg tilvik þar sem ég hefði gjarnan viljað sjá hina og þessa ráðherra úr þáverandi ríkisstjórn hér í salnum til þess (Forseti hringir.) að ræða við okkur, en þannig gengur það fyrir sig. Það er komið fram hver ástæðan er fyrir fjarveru þeirra. Ég vonast til þess að nú sé hægt (Forseti hringir.) að halda áfram þingstörfum.