144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það má vel vera að þessi vettvangur hér, hv. Alþingi, sé ekki vettvangur til að ræða samþykktir landsfunda eða flokksþinga stjórnmálaflokka, en hæstv. forsætisráðherra er ekki bara einhver maður úti í bæ, hann er hæstv. forsætisráðherra sem tilkynnir á sínu flokksþingi að það eigi að leysa hér gjaldeyrishöft og koma með lausnir í þeim málum á næstu dögum eða vikum, hann muni kynna þinginu það eftir helgi, svo það er ekki óeðlilegt að við hv. þingmenn köllum eftir viðveru hæstv. ráðherra.

Það er með ólíkindum að menn dragi það hingað upp á borð að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra séu að hitta mennina úti í bæ. Er ekki nær lagi að þeir hitti okkur á hv. Alþingi (Forseti hringir.) og fari yfir þessi alvarlegu mál? Eða er það kannski svo að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) þurfi að tala saman tveir einir og séu að gera það úti í bæ (Forseti hringir.) núna?