144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta verður alltaf pínlegra og pínlegra. Ég sit í samráðsnefnd um afnám hafta og hún hefur fundað endrum og eins. Ég stóð í þeirri meiningu á dögunum að það ætti að fara að gera eitthvað af viti í þeirri nefnd. Ég er náttúrlega bundinn trúnaði um það sem þar fer fram en eftir yfirlýsingar helgarinnar frá hæstv. forsætisráðherra er ég bara eitt stórt spurningarmerki. Ég veit ekkert í hvaða leikriti ég er staddur í þessari samráðsnefnd. Ef hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra er annt um að byggja upp traust og ef þeir telja virkilega mikilvægt að standa að afnámi hafta í pólitísku samráði er óendanlega mikilvægt að þeir séu hérna núna. En hvar eru þeir? Þeir eru sem sagt „úti í bæ“ að ræða höftin. Það er eins og það sé markvisst hjá þeim að reyna að hafa okkur öll hérna að fíflum. (Forseti hringir.) Hvaða fundur er þetta um höftin? Af hverju er ég ekki þar? (Gripið fram í: Nákvæmlega.)