144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér hefur þingmönnum orðið tíðrætt um losun gjaldeyrishafta sem eðlilegt er því að þetta er eitt stærsta hagsmunamál okkar, en ég vil líka koma hingað og lýsa yfir áhyggjum af því að hér séu ekki forustumenn ríkisstjórnarinnar til svara þegar hér er nánast allsherjarverkfall, miklar kjaradeilur, og enn eina ferðina hefur skapast alvarlegt ástand á Landspítalanum. Um það mál hefur forsætisráðherra lítið sagt fyrir utan það að hann virðist ætla með annarri hendi og einn og sjálfur að hætta við að byggja við Hringbraut nýjan spítala og færa hann, að mér skilst, í sjónvarpshúsið. Framsóknarflokkurinn hefur lýst yfir fullum stuðningi við kjarabaráttuna sem stendur yfir. Ég hefði talið mjög brýnt að hann kæmi hingað til að segja okkur hvernig hann ætlar að færa þetta úr orðum yfir í athafnir og gera heilbrigðiskerfið starfandi að nýju af fullum krafti. Ekki veitir af eftir alvarleg verkföll síðasta haust. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Það er óþolandi að við séum sniðgengin (Forseti hringir.) af ríkisstjórninni með þessum hætti.