144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

för ráðherra til Kína.

[15:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fór til Kína í síðasta mánuði og var þar ásamt fulltrúum fyrirtækisins Orka Energy, en það vill svo til að hann var einmitt á launum við ráðgjöf hjá því fyrirtæki þegar hann var utan þings. Fram kom á vef ráðuneytisins að með í för hæstv. ráðherra hafi verið fulltrúar frá Marel og Orku Energy en því var reyndar breytt á vefnum 8. apríl og sagt að fulltrúar fyrirtækjanna hafi verið staddir í Kína og ekki verið hluti af sendinefnd ráðherra.

Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju var þessu breytt á vef ráðuneytisins? Hvaða mat lá þar að baki? Hvað var misfarið með í fyrri útgáfu? Það vill svo vel til í vefvæddum heimi að fyrri gerðir af slíku varðveitast líka. Þetta fyrirtæki vinnur að orkutengdum verkefnum í Asíu og fram kemur að það hafi átt fund með ráðherranum á meðan á dvöl hans í Kína stóð. Hver átti frumkvæðið að því að Orka Energy kæmi með í þessa ferð? Hvar liggur sú ákvörðun?

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Í hverju var ráðgjöf hans fólgin? Hvað er það sem ráðherrann ráðlagði fyrirtækinu að gera og hvað kostuðu þau ráð? Hvað er langt síðan ráðherrann þáði peninga frá þessu fyrirtæki, væntanlega ráðherrann/ráðgjafinn? Voru þessi tilteknu ráð sem ráðherrann/ráðgjafinn gaf fyrirtækinu til umræðu á fundinum í Kína?