144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

för ráðherra til Kína.

[15:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég sagði það hér áðan, það er enginn íslenskur aðili sem á þessi fyrirtæki, þetta eru allt aðilar sem eru annaðhvort búsettir erlendis eða eru erlendir aðilar, reyndar á þessum tíma er þetta í meirihlutaeign erlendra aðila.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst svolítið áhugavert að hlusta á þessa fyrirspurn hv. þingmanns. Það er eins og verið sé að reyna að gera það tortryggilegt að menn vinni hjá einkafyrirtækjum. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það ekki, hefur ekki þá reynslu. (SSv: Ha?) Hv. þingmaður virðist samkvæmt ferilskrá sinni aldrei hafa unnið hjá neinum einkaaðilum heldur bara hjá hinu opinbera. Ég hef líka unnið hjá hinu opinbera, ég starfaði til dæmis í Háskóla Íslands og þáði þar laun. Það voru fulltrúar frá Háskóla Íslands með í för, það voru þrír háskólarektorar með í þessari ferð. Ekki er með nokkrum hætti hægt að gera það tortryggilegt að rektor þess skóla væri þarna þó að ég hafi unnið hjá þeirri stofnun.

Ég vil líka segja eins og er að það sem skiptir máli hérna er þetta: Allt var uppi á borðum. Það liggur alveg fyrir að á þessum tíma var ég að vinna fyrir þetta fyrirtæki. Ég tel eðlilegt að þingmenn vinni fyrir sér þá þegar þeir eru ekki á þingi og ég er mjög stoltur af þeim störfum. Þetta fyrirtæki hefur keypt þjónustu af íslenskum vísindamönnum og ráðgjöfum fyrir milljarða (Forseti hringir.) á undanförnum árum og þar með lagt grunn fyrir hagvöxt. Ég þekki aftur á móti skoðanir hv. þingmanns á hagvexti. Ég verð að segja eins og er [Háreysti í þingsal.] að ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í því að gefa íslenskum vísindamönnum og íslenskum sérfræðingum tækifæri til að nýta þekkingu sína. (Forseti hringir.) Ég hef talið rétt hingað til, rétt eins og Jóhanna Sigurðardóttir, rétt eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, rétt eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, rétt eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, að vera einmitt viðstaddur undirskriftir samninga þessa sama fyrirtækis þannig að … (Gripið fram í.)— Og ekki á launum í þessu tilviki. (Forseti hringir.) Þetta eru ekkert annað en aðdróttanir og ég verð að segja eins og er að það er sérkennilegt að hlusta á það hjá hv. þingmanni hvernig þessar aðdróttanir (Forseti hringir.) ...

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að virða tímamörk.)