144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

samráð um frumvörp um húsnæðismál.

[16:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Í ágætri ræðu sem forseti hélt í upphafi fundar þá hvatti hann þingmenn til forgangsröðunar og skipulags og það höfum við gert í hv. velferðarnefnd. Við vorum undir það búin að taka við málum sem varða húsnæðismál. Fjögur eru á þingmálaskrá en þó hefur verið boðað að eitt þeirra frestist fram á haustið.

Nú er svo komið að aðeins eru komin fram tvö mál. Annað er frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum og hitt um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Bæði frumvörpin enda á sömu setningunni: Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð. Stóra útgjaldafrumvarpið um húsnæðisbætur og stofnstyrki vantar. Það hefur tekið tvö ár að skila þessu af sér og átti að vera í ljósi þess að mikilvægt væri að hafa samráð. Það virðist hafa verið þannig að ekki var haft samráð við tvö helstu leigufélög landsins sem bæði eru í almannaþjónustu, Félagsstofnun stúdenta og Félagsbústaði, enda segja þau að verði frumvarp um húsaleigulög að lögum verði starfsemin í uppnámi. Þannig var því samráði háttað.

Varðandi stóra húsnæðisbótamálið og stofnstyrkjamálið er það grundvallarmál til að tryggja húsnæðisöryggi og koma upp virkum leigumarkaði, en það virðist ekki fást afgreitt. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur sjálf vakið athygli á því með einhvers konar gjörningi þar sem hún sendir sendingu til starfsfólks ráðuneytis með orkustöngum og hvetur það til að vinna vinnuna sína. Ég geri ráð fyrir því að ráðherra viti jafn vel og ég að ekki er við embættismenn fjármálaráðuneytisins að sakast heldur viljaleysi ríkisstjórnarinnar. Og ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig háttaði hún samráði við gerð þessara frumvarpa (Forseti hringir.) og hefur hún stuðning ríkisstjórnarinnar við mál sitt um húsnæðisbætur og stofnstyrki?