144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

samráð um frumvörp um húsnæðismál.

[16:08]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þekkir ágætlega þar sem hún var fulltrúi í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála þar til hún tók ákvörðun um að hætta, var skipaður stór samvinnuhópur og raunar lagt upp með að allir þeir sem hefðu áhuga á því að koma að tillögum varðandi húsnæðismálin ættu möguleika á því að senda fulltrúa. Síðan var það raunar útvíkkað enn frekar af því að verkefnum var skipt upp og myndaðir fjórir mismunandi hópar og endaði með því að hver og einn fulltrúi gat skipað fjóra fulltrúa í það samráð.

Síðan spyr hv. þingmaður um samráð og ég tel rétt að túlka spurningu hv. þingmanns þannig að hún snúi að samráðinu eftir að tekið var við tillögunum og byrjað að vinna með þær í frumvarpsgerð. Það var með ýmsum hætti og er tilgreint m.a. í greinargerðinni með frumvörpunum við hvaða aðila var haft samráð. Ég skal hins vegar viðurkenna og ég vona að hv. þingmaður virði það við mig að þar sem ég er leigjandi sjálf þá endurspeglar frumvarpið um húsaleigulögin kannski meiri áherslu á leigjendur og að taka stöðu með þeim frekar en að taka stöðu með leigusölunum. Við erum núna einfaldlega að fara yfir athugasemdir. Málið liggur núna fyrir þinginu og ég fæ vonandi tækifæri til að mæla sem fyrst fyrir því þannig að hv. þingmaður geti sett málið í umsagnarferli og farið yfir athugasemdir sem berast um þessi tvö frumvörp og gert þær breytingar sem þarf ef þingmaðurinn telur rétt að taka undir þær.