144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

leiðrétting kjara eldri borgara.

[16:16]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Nú er starfandi nefnd undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem er einmitt hugsuð til þess að endurskoða almannatryggingakerfið. Þar eiga eldri borgarar og öryrkjar fulltrúa þannig að þeir sitja við borðið og eru að vinna tillögur að því hvernig hægt sé að bæta kjör þeirra.

Ég vil líka minna á, og síðasta ríkisstjórn verður að eiga það sem hún á, að samkvæmt þeim tölum sem við höfum þá var einmitt — og það var eitthvað sem samstaða var um hér í þinginu — staðinn vörður um greiðslur almannatrygginga þegar menn stóðu hér í mjög erfiðum niðurskurði.

Ég hef líka lagt áherslu á það í mínu starfi sem ráðherra og ég veit að þegar tillögurnar koma fram verður mikil samstaða áfram hér í þinginu um að bæta kjör þessara hópa.