144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

svör við fyrirspurn.

[16:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Eitthvað er þetta á misskilningi byggt. Þegar og ef kemur að því að gera á einhverjar breytingar á háskólunum, til sameiningar eða annað slíkt, þarf að gera breytingar á lögum. Þá er borið fram frumvarp og þá fara fram þrjár umræður um það. Í þeim umræðum getur hv. þingmaður tekið fullan þátt eins og allir aðrir þingmenn. Þetta hlýtur þingmaðurinn að þekkja af langri veru sinni hér. (GuðbH: Við erum að ræða um …) Ég hef sagt áður að það er ótækt að hv. þingmaður hafi ekki enn fengið svör við fyrirspurn sinni, en hv. þingmaður hlýtur að vita að ýmiss konar nefndarstarf getur farið fram á vegum ráðuneytisins án þess að gera það þannig tortryggilegt að þingið komist ekki þar að. Það er alveg eðlilegt að slíkt starf geti átt sér stað. Þegar mál eru síðan komin á þann stað að það þarf að bera þau inn í þing í formi frumvarpa tekur að sjálfsögðu við hin þinglega meðferð málsins. Þetta hlýtur hv. þingmaður að þekkja. (GuðbH: Hvað með eftirlitshlutverk hans?)