144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

svör við fyrirspurn.

[16:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessum sal er oft erfitt að skilja nákvæmlega hvað fólk meinar nema kannski þegar það segir fimmaurabrandara sem oftast eru misheppnaðir. Ég heyrði það þó hjá hæstv. ráðherra, nema ég hafi tekið vitlaust eftir, nú getur hún því miður ekki svarað mér þannig að ég bið hana afsökunar ef ég hef tekið vitlaust eftir, en hún sagði að það kæmi í ljós þegar hún legði frumvörpin fram í ríkisstjórn hvort hún hefði stuðning við þau eða ekki. Mér hefur skilist að það hafi verið maraþonfundir síðustu dagana í mars til að fjalla einmitt um þessi húsnæðismálafrumvörp sem skipta gífurlega miklu máli. Ég verð bara að lýsa undrun minni yfir því að það sé ekki enn alveg ljóst hvort það er stuðningur við frumvörpin í ríkisstjórninni. Það er mjög undarlegt, en ég vek athygli á því að það er ekki ljóst.