144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjárveitingar til háskóla.

519. mál
[16:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Ég vil taka það fyrst fram að í ráðuneytinu stendur nú yfir vinna við gerð heildstæðrar stefnumótunar fyrir málefnasviðið háskólar og vísindastarfsemi til fimm ára. Tekið verður til ólíkra þátta æðri menntunar, rannsókna og nýsköpunar og helstu stoðaðila málaflokksins. Markmið stefnumótunarinnar er að auka skilvirkni, samþættingu, árangur og gæði innan málaflokksins. Stefnumótunin verður lögð til grundvallar ákvörðun um kennslu og rannsóknir í háskólum, þar á meðal hvort ráðist verður í breytingar á fyrirkomulagi fjármögnunar, kennslu og rannsókna í háskólum.

Núverandi fyrirkomulag fjárveitinga til kennslu í háskólum hefur verið við lýði frá árinu 1999 og kom það í fyrsta skipti til framkvæmda við fjárlagagerð ársins 2000. Fyrirkomulagið byggir á reglum nr. 646 frá 1999, um fjárveitingar til háskóla. Á grundvelli reglnanna ákvarðar ráðuneytið fjárveitingar til kennslu með aðstoð reiknilíkans er byggir m.a. á skiptingu náms í verðflokka eftir fræðasviðum, fjölda ársnema og brautskráninga hjá einstaka skólum. Jafnframt hefur ráðuneytið í ákveðnum tilvikum gripið inn í sértækar aðkallandi aðstæður í háskólum með viðbótarfjárveitingum, en slíkar ráðstafanir eru tímabundnar aðgerðir.

Opinber framlög til háskólanna hafa lækkað úr 1.330 þús. kr. fyrir hvern ársnema árið 2009 í 1.170 þús. kr. árið 2013. Þetta má að stórum hluta skýra með samspili nemendafjölgunar og niðurskurðar í kerfinu. Ársnemum fjölgaði um 1.745 á milli áranna 2008 og 2010 og þar af fjölgaði ársnemendum í Háskóla Íslands um 1.453. Háskóli Íslands bar því 83% af fjölguninni í kerfinu.

Lækkun framlaga á hvern ársnema undanfarin ár hefur veikt mjög rekstrargrundvöll háskólanna. Í fjárlagafrumvarpi 2015 var leitast við að snúa þeirri þróun við og stíga fyrstu skrefin í átt að færa framlög á hvern nemanda nær því sem gerist í löndum OECD og annars staðar á Norðurlöndunum. Ráðist var í sértækar hækkanir á einingaverðum nokkurra reikniflokka með það að markmiði að styrkja rekstrargrundvöll skólanna og voru reikniflokkar á sviði tölvunar- og stærðfræði, hjúkrunarfræði, félagsvísinda og kennaranáms hækkaðir að þessu sinni. Breytingar á fjárhæðum reikniflokkanna hafa mismunandi áhrif á heildarfjárveitingu hvers skóla þar sem samsetning nemendahópanna er ólík eftir skólum.