144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjárveitingar til háskóla.

519. mál
[16:45]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og hv. þingmaður, þakka fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá frá ráðherranum svar við þeirri spurningu sem hér er borin fram.

Við stjórnarandstöðuþingmenn fórum mjög vel í gegnum þetta fyrir jólin, þegar við vorum að afgreiða fjárlagafrumvarpið, og óskuðum þá meðal annars eftir skýringum á smánarlegu framlagi, úr 617 millj. kr. pottinum, til Háskólans á Akureyri. Ég hugsa að um sé að ræða eina skólann sem hefur sýnt ráðdeildarsemi sem felst í því að lækka laun starfsmanna, leggja niður deildir o.s.frv. en því er mætt með því að skólinn fær ekki aukið framlag þegar betur er farið að ára. Ég tek því undir þær spurningar sem hér hafa komið fram og hvet ráðherra til að (Forseti hringir.) styðja betur við bakið á Háskólanum á Akureyri en gert hefur verið í ljósi þeirrar sögu sem hann á.