144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjárveitingar til háskóla.

519. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, hann er ekki einn um það að hafa ekki skilið svar ráðherra. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, og reyndi ég nú að bera mig eftir svarinu, að ég skildi ekki hvað ráðherrann var að fara. Bara ekki neitt. Það er kannski ný stefna í störfum þingsins að ráðherra noti ekki tíma sinn til þess að svara fyrirspurnum, ábyggilega gert til þess að halda starfsáætlun, en það er þá eitthvað nýtt.

Virðulegi forseti. Ég hvet sveitunga minn, hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson, til þess að koma í seinna andsvar og segja okkur það skýrt: Verður reiknilíkaninu breytt þannig að hlutföllin verði ekki aftur með þeim hætti sem ég gerði að umtalsefni, þegar Háskólinn á Akureyri fær aðeins 10,3 millj. kr. af 617 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til háskóla? Verður reiknilíkaninu breytt þannig að inn í það komi fjárveitingar vegna fjarnema? Eða á bara að taka það einhvern veginn út úr öðrum rekstri og flaggskipið í þessari kennslu, Háskólinn á Akureyri, fái það ekkert bætt?

Virðulegi forseti. Ef ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera í þessu þá liggur við að ég segi bara að það verði langbest fyrir hana að fela yfirvöldum Háskólans á Akureyri að reka alla háskólana í landinu vegna þess að þau gera það á mjög hagkvæman og góðan hátt eins og ég sagði í byrjun, þau hafa uppfyllt öll skilyrði.

En að þessari niðurstöðu varðandi aukafjárveitingar sem ég hef gert að umtalsefni og spurning mín snerist um. Verður þessu reiknilíkani breytt? Mun ráðherrann beita sér fyrir því að Háskólinn á Akureyri fái leiðréttingu vegna aukafjárveitinga og reiknilíkanið (Forseti hringir.) verði leiðrétt þannig að skólinn geti staðið við sitt (Forseti hringir.) og haldið áfram að eflast en þurfi ekki sífellt að vera í nauðavörn, eða verður þetta að hætti (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar og á kostnað þeirra?