144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

skilyrðing fjárveitingar til háskóla.

522. mál
[16:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Seinni fyrirspurn mín til hæstv. menntamálaráðherra er um, eins og forseti hefur lýst, skilyrðingu fjárveitinga til háskóla:

1. Er það í anda laga um háskóla að skilyrða fjárveitingu, eins og gerðist við síðustu fjárlagagerð gagnvart Háskólanum á Akureyri?

2. Hyggst ráðherra halda til streitu þeim skilyrðum sem þar komu fram?

Virðulegi forseti. Það var mikil umræða við 3. umr. fjárlaga þegar þingmenn áttuðu sig á því að meiri hluti fjárlaganefndar, tek skýrt fram að það var meiri hluti og sennilega ekki nema einn þingmaður úr meiri hlutanum, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir formaður, beitti sér fyrir því að gera svohljóðandi tillögu við 3. umr. fjárlaga, með leyfi forseta:

„Gerð er tillaga um 30 millj. kr. framlag til Háskólans á Akureyri. Annars vegar er 20 millj. kr. framlag til eflingar kennslu í heimskautarétti sem fram til þessa hefur aðeins verið kenndur annað hvert ár vegna fjárskorts, þrátt fyrir að nemendur hafi komið víða að og námið gefið góða raun. Hins vegar er 10 millj. kr. framlag til að auðvelda skólanum að fjármagna rannsóknarmissiri fastráðinna kennara.“

Til að gera langa sögu stutta hefur það gerst að minnsta kosti tvisvar við lokaafgreiðslu fjárlaga að menn hafa reynt að lagfæra eitthvað fjárveitingar til háskólans með 30 millj. kr. framlagi, það var gert 2013 og 2014, sem átti síðan að verða varanlegt. Það gerðist hins vegar ekki við gerð síðustu fjárlaga heldur var þetta skilyrði alveg á óskiljanlegan hátt sett þarna inn frá meiri hluta fjárlaganefndar sem skipti sér af því hvernig Háskólinn á Akureyri velur námsframboð. Það er alveg með ólíkindum. Þá kom fram við umræðuna, m.a. frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að þetta bryti í bága við lög um háskóla. Spurning mín er sett fram vegna þess að þetta var dæmalaus aðgerð frá hendi þessara aðila og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson lagði líka í sérstaka vegferð til að reyna að verja þetta.

Virðulegi forseti. Háskólayfirvöldum á Akureyri voru mjög mikil vonbrigði að frétta af þessari skilyrðingu frá formanni fjárlaganefndar. Það var aldrei rætt við háskólarektor, aldrei nokkurn tímann. Það kom engin ítarleg lögskýring frekar um þetta, en að sjálfsögðu á yfirstjórn skólans innan lagaramma um opinbera háskóla að geta gert þetta sjálf og á að gera þetta sjálf. Á þeim stutta tíma sem ég hef til að leggja fram þessa fyrirspurn og rökstyðja spurningu mína sem ég las upp áðan spyr ég hvort ráðherra finnist það viðeigandi og hvort það sé einhver breyting (Forseti hringir.) sem á að vera varanleg, að fjárlaganefnd eða einstakir nefndarmenn fjárlaganefndar fari að segja háskólanum til um hvernig hann eigi að stýra sinni starfsemi.