144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

skilyrðing fjárveitingar til háskóla.

522. mál
[17:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég legg auðvitað áherslu á það eins og fleiri að kostnaður háskólans vegna rannsóknarmissira fastráðinna kennara þarf að komast varanlega inn í fjárveitingagrunn háskólans. Þeir sem þekkja til forsögu málsins sjá í hendi sér hversu fráleit þessi skilyrðing meiri hluta fjárlaganefndar var og ég tel að líta eigi á það sem víti til að varast. Það má ekki gerast aftur að Alþingi sé svo heillum horfið að það fari að horfa fram hjá skýrum ákvæðum laga um háskóla og sjálfstæði þeirra hvað varðar ákvarðanir um kennslu í einstökum áföngum eða hvenær innritað er í þá. Það væri til að æra óstöðugan ef fjárveitingavaldið ætlaði sér að fara að grípa hér og þar inn í og taka ákvarðanir um slíkt, að stundum megi innrita í þetta og stundum ekki.

Það hefur ekkert skort upp á metnað Háskólans á Akureyri að efla starfsemi sína á sviði norðurslóðamála og þar með að kenna heimskautarétt. Því yrði að sjálfsögðu tekið fagnandi ef fjárveitingavaldið vildi (Forseti hringir.) gera skólanum kleift að standa þar enn myndarlegar að málum. En það á ekki að vera á kostnað þess að fastráðnir kennarar við Háskólann á Akureyri njóti (Forseti hringir.) sambærilegra réttinda hvað varðar rannsóknarleyfi og aðrir opinberir háskólar.