144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

skilyrðing fjárveitingar til háskóla.

522. mál
[17:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að grípa tækifærið og koma inn í umræðuna um þessa skilyrðingu sem er sett af hv. fjárlaganefnd. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við reynum að hafa skýrt ferli, sem sagt finna út með hvaða hætti á að taka ákvarðanir í sambandi við einstaka málaflokka, í þessu tilfelli menntamálin. Við sjáum í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar bókstaflega stefnumótun í menntamálum. Mig langar að heyra hvað hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra finnst um það þegar slíkt kemur þar inn án þess að það mál hafi nokkurn tíma farið til dæmis til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég auglýsi eftir því að menn búi til menntastefnu, komi með stefnuna sem stefnuplagg inn í hv. Alþingi, fái umfjöllun um það þar þannig að hæstv. ráðherra geti haft bakland í slíkri heildarstefnumótun og þá sé hægt að takast á um hlutina þar og ræða þá þannig í opinberri umræðu í samfélaginu. Eitt af því mikilvægasta sem okkur vantar er einmitt öflug menntastefna.