144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

skilyrðing fjárveitingar til háskóla.

522. mál
[17:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að geta komið og þakkað hæstv. ráðherra fyrir svarið og notað tækifærið og þakkað öðrum þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu og leggja áherslu á það sem var í fyrirspurn minni og ég hef hér gert að umtalsefni, þ.e. þá dæmalausu afgreiðslu meiri hluta fjárlaganefndar á 30 millj. kr. framlaginu til Háskólans á Akureyri og hvernig það var skilyrt.

Þegar ég segi að ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið tók ég svarið þannig þegar hann las upp úr lagabálkum og öðru að það væri algjörlega á skjön við það sem meiri hluti fjárlaganefndar lagði til. Okkur tókst ekki að fá sérstaklega formann fjárlaganefndar til að breyta þessari vitleysu til baka og hafa þetta 30 millj. kr. framlag óskilyrt og að háskólayfirvöld á Akureyri mundu ráðstafa því eins og þeim sýndist — eins og lögin segja til um. Það má eiginlega segja að hæstv. ráðherra hafi með tilvitnun í þessi lög heldur betur tuktað til formann fjárlaganefndar og meiri hluta nefndarinnar fyrir vinnubrögðin þar.

Það má spyrja, virðulegi forseti, og mig langar að biðja hæstv. ráðherra að svara því í seinna svari: Ef svo fer til dæmis að engir nemendur eða ekki nægilega margir sækja um nám í heimskautaréttinum fyrir þetta ár, fellur þá fjárveitingin niður? Eða má háskólinn nota hana? Þetta er veigamikið atriði. Ráðherra getur svarað þessari spurningu og ráðherra á eftir að taka þátt í því að koma með fjáraukalög þar sem hægt er að taka þessa skilyrðingu til baka og láta háskólann vita strax að þessar 30 milljónir verði fyrir rannsóknarmissirin eins og það á að vera þannig að það verði þá eins og gert hefur verið undanfarin ár og við séum ekki að klípa þetta litla af sem þarna er veitt. Nægur er vandinn og að mér finnst hálfgert einelti (Forseti hringir.) frá hendi menntamálayfirvalda gagnvart Háskólanum á Akureyri sem fær ekki bætt og fær ekki nægjanlega fjárveitingu, t.d. út af fjarnáminu sem ég gerði að umtalsefni áðan (Forseti hringir.) en ráðherrann hefur ekki enn svarað af hverju ekki væru veittir fjármunir út á það.