144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

skilyrðing fjárveitingar til háskóla.

522. mál
[17:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu hér. Fyrst vil ég svara þeirri spurningu hvort ég hafi haft áhrif á málsmeðferðina. Auðvitað var málið á forræði fjárlaganefndar og kom þannig búið inn í þingsalinn til afgreiðslu. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að það fari ekki vel á því að stórar stefnumótandi ákvarðanir í menntamálum séu teknar í fjárlaganefnd án þess að það mál hafi þá verið rætt á öðrum vettvangi með aðkomu þeirrar nefndar þingsins sem sér um menntamál. Ég held að það sé almenna reglan.

Auðvitað verður því ekki haldið fram að hér sé um háar fjárhæðir eða einhvers konar gjörbreytingu eða stórar breytingar á starfsemi skólanna að ræða en vissulega er það alveg rétt sem hér hefur verið sagt, það þarf að huga að þeim lögum og reglum sem gilda um háskólana. Sú umræða fór hér fram. Niðurstaðan varð sú að fjárlög voru samþykkt með þessum hætti og það er það sem við vinnum með.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns sem skiptir verulega miklu máli varðandi það ef ekki finnast nægir nemendur verður það að sýna sig og þá hefur þingið tækifæri til þess, eins og hv. þingmaður benti á, að taka á því í gegnum fjáraukalög. Fjárlögin eru þó það sem gildir og við verðum að vinna með. Ég bendi líka á það sem ég sagði í mínu fyrra svari, ráðherra er falið að gera samninga og annað slíkt við skólann á grundvelli fjárlaga um fjárframlögin til þriggja til fimm ára í senn. Ég minni á það.

Hér hefur verið spurt aftur um þær aðgerðir sem hv. þingmaður nefndi um í fyrri spurningu sinni og ég vil bara ítreka að þar var um að ræða aðgerð sem fékk sérstakt fjármagn sem kom fram við 2. umr. fjárlaga þar sem með almennum hætti var horft á það hversu margir nemendur væru umfram það sem var verið að greiða fyrir í skólanum. (Forseti hringir.) Það er ekki sjálfgefið að aftur fáist fjármagn til slíkra aðgerða. (Forseti hringir.) En það var nauðsynlegt að grípa til þeirra aðgerða vegna þess að það var kominn svo mikill fjöldi (Forseti hringir.) inn í kerfið sem var ekki greitt fyrir og það varð stórskaði af.