144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

innritunargjöld öryrkja í háskólum.

547. mál
[17:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem og þeim hv. þingmönnum sem hafa kvatt sér hljóðs og tekið þátt í þessum umræðum. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þingmanna að þetta er spurning um jafnræði og einmitt vegna þess, líkt og kom fram í máli hæstv. ráðherra, tel ég mikið tilefni til þess að setja einhvers konar samræmdar reglur á vegna þess að ekki er sjálfgefið að allir öryrkjar vilji fara í sams konar nám, heldur þarf að vera fjölbreytt námsframboð og að þeir geti fengið einhvers konar samræmdan afslátt, í það minnsta á meðan fjárhagur öryrkja og bætur almannatrygginga eru jafn lágar og raun ber vitni, og þessi hópur er líklegri til að búa við fátækt en ýmir aðrir hópar.

Ég leitaði á netinu þegar ég var að undirbúa mig fyrir þessa fyrirspurn til að skoða hreinlega hversu margir öryrkjar hafi lokið háskólanámi. Því miður fann ég engar nýjar tölur heldur einungis tölur frá árunum 2008 og 2009. Þar kom fram að aðeins 7% þeirra sem nú þegar eru öryrkjar hafa lokið háskólanámi. Þetta eru náttúrlega gríðarlega lágar tölur. Ég er ekki með aðra fyrirspurn til hæstv. ráðherra í þessari síðari innkomu minni í ræðustól en vil hins vegar (Forseti hringir.) hvetja hann eindregið til þess að(Forseti hringir.) vinna að formlegri stefnumörkun þannig að við komum þessum málum í skýrari farveg öryrkjum sem og landsmönnum öllum til hagsbóta.