144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nám og náms- og starfsráðgjöf fanga.

553. mál
[17:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er orðið svolítið síðan ég lagði þessa fyrirspurn fram og sem betur fer hefur eitthvað svolítið gerst í þessum málum. Fyrirspurnin er þessi:

Hyggst ráðherra tryggja föngum í öllum fangelsum landsins sams konar þjónustu og veitt er á Suðurlandi vegna náms og náms- og starfsráðgjafar?

Mikill munur er á því með hvaða hætti fangar fá aðstoð til að stunda nám og einnig hvað varðar náms- og starfsráðgjöf. Það hefur þó aðeins verið bætt úr síðari þættinum, þ.e. náms- og starfsráðgjöfinni, þar sem Fjölbrautarskóli Suðurlands, sem hefur haft umsjón með þeim þætti vegna fangelsanna, hefur gert, það er nýjast að ég held, samning við Verkmenntaskólann á Akureyri um 15% starfshlutfall þannig að þangað kemur námsráðgjafinn í tvo klukkutíma einu sinni í viku. Það sama gildir um Kvíabryggju, þar kemur námsráðgjafinn í um tvo klukkutíma í hverri viku.

Hins vegar er það auðvitað ekki í hlutverki námsráðgjafa að aðstoða við nám, þ.e. við kennsluna. Á Litla-Hrauni fá fangarnir kennslu alla virka daga með kennara úr hverju fagi fyrir sig og hafa þar aðstöðu. Fangar á Sogni fá reglulegar heimsóknir kennara og líka fangar í Kópavogi. Það er ekkert slíkt í boði á Akureyri, þ.e. ekkert staðnám, eingöngu er í boði fjarnám. Það sama má segja um Kvíabryggju og fyrir utan að þar er ekkert staðnám í boði heldur eingöngu fjarnám er engin aðstaða fyrir nemendur. Þeir þurfa að læra hver í sínu herbergi og þar er heldur ekkert viðtalsherbergi skilst mér fyrir náms- og starfsráðgjafa. Það er líka þannig að á Kvíabryggju hafa fangar ekki fullan aðgang að interneti og geta þar af leiðandi ekki unnið öll verkefni sem þeim eru sett fyrir en hafa þó einungis tök á því að stunda fjarnám, eins og ég sagði áðan. Það er því augljóst að föngum er mismunað hvað varðar nám og námsgögn bæði eftir kyni og líka milli landshluta. Mig langar því að vita hvort hæstv. ráðherra sér það fyrir sér að breyta þessu eitthvað og bæta úr.

Á Akureyri hefur Fangelsismálastofnun neitað að koma til móts við kröfur fangavarðar sem er kennari og hefur borið sig eftir því að aðstoða fanga við kennslu en óskað eftir launahækkun. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann (Forseti hringir.) sæi fyrir sér að hann og innanríkisráðherra gætu t.d. gert samkomulag um það til þess að leysa þann vanda.