144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nám og náms- og starfsráðgjöf fanga.

553. mál
[17:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka umræðuna og ráðherra þau svör sem hann veitti þó að þau bættu kannski ekki miklu við það sem ég var þegar búin að fara yfir. Ég verð að taka undir það sem hér kom fram að það er verknámið sem fangar kalla eftir. Það er kannski það sem hugur þeirra stendur helst til frekar en framhaldsskólanám eða langskólanám í háskóla, þ.e. hjá allflestum virðist áhuginn liggja þar. Og það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að bæta úr. Þetta er hópur sem hefur orðið undir í samfélaginu af einhverjum ástæðum og auðvitað fara ekkert allir í nám eða eru færir til þess að stunda nám, en þetta er mjög mikilvægt, eins og hér kom fram, til framtíðar. Það er sparnaður fyrir þjóðfélagið að búa til virka þátttakendur með því að gefa kost á námi.

Ég sagði áðan að það væri munur á því hvaða tækifæri menn og konur hefðu til að stunda nám. Það er mun betur búið að því á Litla-Hrauni. Þar koma kennarar til starfa og kenna föngum. Er ekki hægt að semja við Verkmenntaskólann á Akureyri um slíkt? Nú eru það tvö ráðuneyti, eins og kom fram hjá ráðherranum, sem fara með þennan málaflokks, ráðuneyti innanríkisráðherra og ráðuneyti menntamálaráðherra, en vissulega er menntunin á vegum menntamálaráðherra. Ég tel að hún eigi að vera það sem og náms- og starfsráðgjöfin, ég held að það sé heppilegra að halda menntunarhlutanum í menntamálaráðuneytinu, þar eigi hann heima, og vil sjá það að ráðuneytin geti unnið að þessu saman. Ég hef áhyggjur af því að þeir aðilar sem sitja inni einhverra hluta vegna hafi ekki jafnræði til náms, eins og mögulegt er að hafa. Ég nefndi áðan að fangar á Kvíabryggju hafa ekki aðgang að internetinu nema mjög takmarkaðan og hafa bara aðgang að fjarnámi. Hæstv. ráðherra hlýtur að vera mér (Forseti hringir.) sammála í því að þá gengur ekki upp að stunda nám.