144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

eftirlit með vistráðningu.

523. mál
[17:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu og það mál sem hún vekur athygli á í þessum fyrirspurnatíma og varðar vistráðningar, au pair eins og við höfum gjarnan kallað þetta hér. Ég vil segja almennt séð um þetta að margt af því sem hv. þingmaður nefndi, þær hættur sem geta steðjað að út af þessum tilteknu leyfum, ef við orðum það með þeim hætti, er þess eðlis að við þurfum að skoða það. Það er alveg ljóst að við þurfum að gera það.

Til að svara spurningunum er það þannig að ekki er gert ráð fyrir sérstöku eftirliti af hálfu Útlendingastofnunar með þeim sem koma hingað til lands til vistráðningar. Útlendingastofnun hefur þó í einstaka tilvikum vísað málum til lögreglu ef upp hefur komið grunur um annaðhvort misnotkun á au pair-leyfinu eða misnotkun á viðkomandi aðila sjálfum. Hið sama gildir um þá útlendinga sem heyra ekki undir starfssvið Útlendingastofnunar, þ.e. EES-/EFTA-útlendinga, en ekki er gert ráð fyrir sérstöku eftirliti.

Almennt má segja að lengst af hafi þetta verið frekar vinsamleg skipti þegar ungar stúlkur og ungir piltar sem vilja kynnast öðrum löndum hafa farið sem au pair til útlanda en með frekari ógnunum í heiminum þurfum við auðvitað að gæta að því að menn misnoti ekki þessi leyfi til annarra hluta en þau eru ætluð. Útlendingastofnun hefur engar upplýsingar um þá sem fara utan til vistráðninga héðan né viðheldur hún sérstöku eftirliti með þeim.

Spurt er hvort ráðherra telji að kerfið og núverandi eftirlit komi í veg fyrir þrælkun, misnotkun og mansal hérlendis. Það er mat þeirra sem vinna að þessum málaflokki að núverandi kerfi komi ekki nægilega vel í veg fyrir það. Þetta er lykilatriði sem ég nefni hér, að kerfið sé með þeim hætti að við getum bætt það. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að núna stendur yfir vinna við endurskoðun útlendingalaganna eins og við þekkjum. Þar er um að ræða þverpólitískt samráð. Í nefnd undir forustu hv. þm. Óttars Proppés er dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar, au pair, til skoðunar, m.a. út frá þessum sjónarmiðum. Þarna komum við enn og aftur að starfi þessarar nefndar. Það eru gríðarlega mörg og flókin viðfangsefni sem hún er að glíma við og þarna er um eitt að ræða sem nefndin lítur sérstaklega til.

Það er auðvitað lykilatriði að það er ekkert sérstakt eftirlit í þessu og það liggur fyrir, hæstv. forseti, að velferðarráðuneytið hefur gagnrýnt þetta fyrirkomulag, telur að við þurfum að gera betur. Ég tek það til mín í því embætti sem ég gegni að við þurfum að líta til þess og mun fylgjast með því líka í störfum nefndarinnar um útlendingamál að þetta verði skoðað. Þótt ég sé ekki með hér á takteinum neinar tölur um konkret dæmi eru þó vísbendingar um að einhver misnotkun hafi átt sér stað. Við því verðum við að sjálfsögðu að bregðast.

Síðan til viðbótar er það rétt sem hv. þingmaður sagði áðan, ekki eru fyrir hendi nægileg úrræði handa þeim einstaklingum sem geta þá hafa lent í vanda. Það er eitt af því sem við þurfum þá líka að líta til en það snýr ekki beinlínis að því ráðuneyti sem ég ber ábyrgð á. Við erum hér með leyfismálin en þegar fólk lendir í einhverju þarf að skoða það sérstaklega og þá er það nokkuð sem gæti líka verið undir velferðarráðuneytinu.

Við erum meðvituð um þetta og þetta er eitt af því sem við höfum verið að skoða, eins og ég segi, enn og aftur út af útlendingamálum. Tilgangurinn er að bæta þetta umhverfi og gera það öruggara fyrir þá sem nýta þessi leyfi og skilvirkara á allan hátt.