144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

eftirlit með vistráðningu.

523. mál
[17:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur fyrir að taka þetta mál upp hér. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að það sé rætt og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að svara hér skýrt, bæði að eftirlit skorti og að það þurfi að skerpa reglur og utanumhald, m.a. að reyna að nálgast það í gegnum þá nefnd sem er í gangi varðandi útlendingamálin. Það hafa verið félög í kringum þetta vistráðingarform þar sem menn hafa einmitt hugsað sér að fólk geti komið og verið í nýju landi, fengið að kynnast menningu og tungumáli viðkomandi landa, unnið eingöngu með börn og haft skilgreindan tíma en því miður hafa menn horft upp á að það hefur orðið misnotkun á þessu formi.

Ég vil líka vekja athygli á því að þetta er dæmigert mál sem hefur verið tekið upp í Norðurlandaráði. Hv. þingmaður hefur bent á að hún er einmitt fulltrúi í velferðarnefnd Norðurlandaráðs og þar hefur meðal annars flokkahópur sósíaldemókrata lagt fram stórt mál í kringum þetta. Ég held að við ættum að reyna að fylgja því eftir sameiginlega í þinginu að samþykktir og athuganir frá (Forseti hringir.) Norðurlandaráði skili sér inn í íslenska löggjöf og reglur.