144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

flutningur verkefna til sýslumanna.

548. mál
[18:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir umræðuna um þetta mikilvæga mál. Ég hlýt að gæta sérstaklega að embætti sýslumanna, að þau geti gegnt því mikilvæga hlutverki sem þeim er falið. Það er alveg ljóst í mínum huga að þessar breytingar voru gerðar til að styrkja þau embætti sem sett voru á laggirnar og það er mikilvægt að það gangi eftir. Ég þarf að gæta að því vegna verkefna og eins með fjárframlögum til þessara embætta sýslumanna — hér var nefnd staðan út af löglærðum fulltrúum o.s.frv., allt er þetta hluti af því að hafa þessa mikilvægu grein úti í héraði sterka og öfluga til þess að sinna sínum verkefnum.

Ég á bágt með að segja meira um þessi einstöku verkefni en það að ég mun halda áfram að tala fyrir því í ríkisstjórninni að verkefnin séu flutt til sýslumannanna. Ég get ekki talað fyrir hönd annarra ráðherra, en ég held að menn hljóti að sjá, og það er eitt af því sem er í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, að þetta eigi að efla, þannig að við þurfum bara að halda áfram að standa að því. Ég þakka fyrir þann stuðning sem ég finn að ég mun fá frá þingmönnum til að tryggja að okkur gangi betur að flytja verkefnin til.