144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nýframkvæmdir í vegamálum.

565. mál
[18:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Okkur hv. þm. Kristjáni Möller er jafn vel kunnugt hvernig ástandið er í samgöngumálum í landinu og það þarf engan að undra eftir þá erfiðleikatíma sem við höfum gengið í gegnum að samgöngukerfið hafi látið á sjá. Ég vil hins vegar segja áður en ég svara spurningunum nánar að það sem er hvað brýnast fyrir okkur hér að mínu mati er að tryggja aukið fé til vegamála. Að sjálfsögðu urðu það mikil vonbrigði fyrir ráðuneyti samgöngumála að minna fé fékkst við afgreiðslu fjárlaga en ráð var fyrir gert í vegamál, en það er hins vegar sá raunveruleiki sem við búum við í innanríkisráðuneytinu og þurfum að horfast í augu við núna þegar við brosum á móti sól á vori á þessu ágæta ári.

Hv. þingmaður nefndi nokkur verk sem samkvæmt útreikningum hans eða upplýsingum og þekkingu á samgöngumálum verður væntanlega ekki farið í að óbreyttu. Ef ég heyrði rétt er það alveg rétt hjá hv. þingmanni um mjög mörg af þeim verkum sem hér voru nefnd, við höfum því miður ekki fjármagn til þess að gera þetta. Ég stend hér ekkert að gamni mínu og lýsi því yfir, þannig er það sem hlutirnir eru og við verðum að horfast í augu við það.

Til þess að svara spurningunum sem hér komu fram þá eru samkvæmt fjárlögum 8,6 milljarðar ætlaðir til framkvæmda eða í stofnkostnað við vegagerðarverk hjá Vegagerðinni árið 2015. Af þeim renna um 5 milljarðar til verkefna sem þegar eru í gangi. Stærstu verkefnin sem þegar eru í gangi eru hringvegurinn um Hellisheiði, Álftanesvegur, Vestfjarðavegur, Eiði – Þverá, hluti, Dettifossvegur að því leyti sem sú framkvæmd var komin í gang, ekki það sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega áðan og að sjálfsögðu sú stóra framkvæmd sem við þekkjum, jarðgöngin eða Norðfjarðargöng, þar sem við sjáum sem betur fer fram á góðan gang í framkvæmdum og við hljótum að þakka fyrir það við þessar aðstæður, a.m.k. gengur borunin vel og kannski útlit fyrir að göngin verði tilbúin fyrr en ella, við skulum sjá til. Annað fjármagn, rúmir 3,5 milljarðar, verður nýtt til eftirfarandi verka sem ég ætla að telja upp:

Slitlag á tengivegi, nýir kaflar víðs vegar um landið eða tæpir 30 kílómetrar, ég geri ráð fyrir 930 millj. kr. í það. Héraðsvegir, landsvegir, styrkvegir, reiðvegir, smábrýr, girðingar o.fl. og breikkun brúa, það er um hálfur milljarður. Jarðgöng og vegir við Bakka, 850 millj. kr. Það er samt ekki beint tengt hefðbundnum samgönguframkvæmdum eins og við vitum, þetta er út af iðnaðarsvæðinu á Bakka, en kemur engu að síður af samgöngufé. Verkefni á Suðvesturlandi eru 650 millj. kr. Þar er fyrst og fremst um að ræða bætt umferðarflæði, almenningssamgöngur, sérreinar og fleira, endurnýjun á ljósum, öryggisaðgerðir ýmiss konar, hjóla- og göngustíga, göngubrýr og undirgöng.

Í gildi er samningur á milli innanríkisráðuneytisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að ekki eigi að fara í nýframkvæmdir á þessu svæði. Sá samningur gildir þangað til á næsta ári þannig að það er líka sá veruleiki sem ég stend frammi fyrir, en ég tel afar brýnt að farið verði í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Arnarnesvegurinn er inni. Það var nú ekki augljóst mál að svo væri, ég vil taka skýrt fram að það þurfti satt að segja töluvert mikið átak til að koma honum inn, en mér finnst mjög jákvætt að það skuli þó hafa tekist, svo maður tali um þá þætti sem eru jákvæðir í málinu.

Undirbúningur verka síðan á samgönguáætlun, þar er um að ræða um 240 millj. kr. og í annað fara u.þ.b. 159 millj. kr.

Flest þeirra verka sem ég nefndi í síðari hluta upptalningarinnar ætlum við að fara í á þessu ári, þau verða boðin út og um þau samið árið 2015, en það er eins og hv. þingmaður nefndi, fjöldamörg önnur verk sem eru tilbúin til útboðs en við getum ekki farið lengra með þau án þess að fé fylgi.

Varðandi útlitið árið 2016 og áfram er samgönguáætlun eins og ég var búin að boða nánast tilbúin. Samgönguráð hefur skilað tillögum sínum. Ég vonast til þess að geta lagt málið fyrir þingið, því miður eftir að fresturinn er liðinn en alveg á næstunni. Þar kemur fram hvernig fjárveitingar verða. Ég ætla ekki að lofa neinum flugeldasýningum, það er þó meira borð fyrir báru, en við þurfum að gera svo miklu, miklu betur af því við þurfum að fara í gríðarlega stórar nýframkvæmdir og síðan eru viðhaldsverkefnin svo gríðarlega stór og þau fara (Forseti hringir.) stöðugt vaxandi. Vetur konungur hefur að sjálfsögðu ekkert hjálpað okkur sérstaklega í því máli, en (Forseti hringir.) við því verður að bregðast. Ég heiti á allan þingheim (Forseti hringir.) að koma með mér í það að sannfæra hér alla um (Forseti hringir.) að þetta eru mjög brýn verkefni.