144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

Norðfjarðarflugvöllur.

566. mál
[18:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fjórða og síðasta fyrirspurn mín á þessum degi er til innanríkisráðherra hæstv. um Norðfjarðarflugvöll og hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hver er stefna ráðherra varðandi uppbyggingu Norðfjarðarflugvallar?

2. Hvað þarf að gera til þess að völlurinn uppfylli skilyrði og verði nothæfur til sjúkraflugs allt árið?

3. Hvenær er áætlað að framkvæmdir geti hafist við flugvöllinn?

Virðulegi forseti. Þessi spurning er lögð fram í framhaldi af kjördæmaviku í haust og margítrekuðum fyrirspurnum á fundum frá íbúum í Neskaupstað um málið. Flugbrautin er gömul malarflugbraut þar sem frostlyftingar eru miklar í bleytu og þegar frost er að fara úr jörðu sem gerir að verkum að völlurinn er ófær. Ég þarf ekki að minna á að Fjórðungssjúkrahúsið á Austurlandi er í Neskaupstað og þjónar miklum tilgangi fyrir allt Austurland, ég tala nú ekki um hin fengsælu fiskimið austur af landinu.

Mér er kunnugt um, vegna þess að það var í minni tíð sem samgönguráðherra, að það var skoðað að leggja nýtt slitlag yfir völlinn á Norðfirði, sem þá átti að kosta 20–30 millj. kr. en við frekari rannsóknir og frekari undirbúning kom í ljós að skipta þarf út jarðvegi, það þarf að setja jarðveg sem þolir betur vatn og frost til að byggja hann upp og þar með er kostnaðurinn kominn í einar 150 millj. kr. með öllu, að mér reiknast til miðað við vísitölu, en ég tek það fram að það er kannski ekki mjög faglegur útreikningur hjá mér.

Við tökum eftir því að ferðum í sjúkraflugi er að fækka í Neskaupstað og eingöngu vegna þess að völlurinn er svo oft ófær. Þá þarf að lenda á Egilsstöðum með tilheyrandi akstri o.s.frv., sem er mjög óheppilegt.

Ég vil líka geta þess, virðulegi forseti, að það er alveg sérstaklega gott tækifæri, og ég tel að ríkisvaldið eigi að nota slíkt tækifæri, þegar framkvæmdir eru við Norðfjarðargöng. Hratið sem kemur úr göngunum Norðfjarðarmegin er gráupplagt efni til að nota í að byggja völlinn upp, til að lyfta honum upp úr þessari bleytu og gera góðan burð og gott undirlag fyrir klæðningu vallarins. Í öðru lagi eru stórir og miklir verktakar á svæðinu með sín tæki, þannig að ég vil leyfa mér að fullyrða að einmitt núna á þessu ári fengi ríkissjóður það allra besta tilboð sem hægt væri að fá í þessa framkvæmd, þ.e. á meðan framkvæmdir standa yfir við Norðfjarðargöng.

Þetta er ástæðan, virðulegi forseti, fyrir því að ég legg þessar spurningar fram um leið og ég hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til að skoða málið. Ég kem betur að því í seinni ræðu minni að skoða þetta sérstaklega varðandi það að tengja þetta framkvæmdum og nota efnið sem kemur úr Norðfjarðargöngum.