144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

uppbygging lögreglunáms.

584. mál
[18:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir brýninguna. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er málaflokkur af því taginu að mjög mikilvægt er að um hann ríki mikil sátt og að það nám sem við leggjum á lögreglumenn sé þess eðlis að það nýtist þeim sem best í starfi.

Ég staldra við endurmenntunina eða símenntunina og velti fyrir mér hvort við þurfum líka að skoða það þegar lengra er komið í þessari vinnu. Ég hef þar sérstakan áhuga á að sjá hvernig það er í öðrum löndum. Ég þekki aðeins til í Bretlandi og gerði þar lauslega könnun. Þar eru gríðarlegar kröfur gerðar til lögreglumanna og -kvenna sem ná frama innan lögreglunnar. Yfirlögregluþjónar — og hvað það nú heitir allt, þeir nota alls konar stig þar — þurfa að taka þung og mikil próf og ég býst við að það sé víðar, ég skoðaði það bara af því að ég hafði tengingar þangað.

Þegar horft er til þeirra brota sem verið hafa í umræðunni hér, fíkniefnabrota alls konar og viðkvæmra brota gagnvart konum, skiptir máli að þeir rannsóknarlögreglumenn sem um þau mál véla fái menntun á því sviði og vel má finna áhuga lögreglunnar á því.

Við erum annars vegar að tala um grunnnám og síðan um hið mikilvæga framhaldsnám sem verður að vera hluti af þessu. Þetta er stórt og mikið mál og miklu stærra þegar ég fór að skoða það en mér fannst í upphafi þegar ég leit yfir skýrsluna nýsest í ráðuneytið. Ég heiti því að ég mun hafa mikið samráð þegar lengra líður, en ítreka það sem ég sagði hér áðan að ég hef ekki verið reiðubúin til að kveða upp mína skoðun á málinu enn þá. En þetta er allt að koma heim og saman.