144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

betrun í fangelsum og aðstoð að lokinni afplánun.

586. mál
[18:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn í þremur liðum og ég ætla að vinda mér í að svara þeim eins og þeir koma fyrir en síðan vil ég kannski bæta við öðrum þáttum síðar.

Spurt er um stefnumótun um betrun í fangelsum hér á landi, hvernig hún hafi farið fram og hvort litið hafi verið til þess hvernig slíkri stefnumótun er háttað í grannríkjunum. Þá er það svo að í innanríkisráðuneytinu er unnið að gerð réttarvörsluáætlunar þessa dagana en hún tekur til allra þessara þátta, þar með talið fullnustu refsinga.

Hvað varðar gerð langtímaáætlunar í fullnustumálum tekur verkefnið annars vegar til greiningar á skipulagslegri og rekstrarlegri stöðu fullnustu refsinga og þróunar tölfræði á árunum 2010–2013 og hins vegar tillagna um langtímaáætlanir til fjögurra ára og tólf ára. Í áætlununum tveimur verða sett fram markmið sem leitast á við að ná fram og lúta m.a. að betrun fanga. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvenær vinnu við gerð þessara áætlana verður lokið en við reiknum þó með miðað við framgang verksins að þær áætlanir liggi fyrir á þessu ári. Ég tel mjög brýnt að það takist.

Þá hefur um nokkurt skeið staðið yfir gerð tillagna vegna frumvarps til laga um fullnustu refsinga á vettvangi ráðuneytisins og við samningu þess lagafrumvarps hefur verið litið sérstaklega til sambærilegra laga annars staðar á Norðurlöndunum þar sem m.a. er litið til þeirra þátta er varða betrun. Ég tek undir með hv. þingmanni að að sjálfsögðu þurfum við að læra af því sem grannríkin hafa gert vel og reyna að taka það upp í löggjöf okkar. Við lítum sérstaklega til þeirra þegar kemur að þessum þáttum. Þannig er að finna tillögur að norrænni fyrirmynd í frumvarpinu sem nú er í smíðum er lúta að breytingum á reglum um reynslulausn ungra fanga og varða upptöku nýs úrræðis sem kallast fjölskylduleyfi og fleira sem hvetja á fanga til að haga sér vel í afplánun og taka þátt í meðferð og námi og öðrum þáttum sem leiða almennt til bætts lífsstíls þegar afplánun lýkur.

Hver er endurkomutíðni í íslenskum fangelsum og hvernig er hún reiknuð? Á árinu 2010 kom út skýrsla um norræna rannsókn á endurkomu í fullnustukerfinu. Rannsóknin fór þannig fram að dómþolum sem luku afplánun á árinu 2005, hófu samfélagsþjónustu, sættu eftirliti samkvæmt skilorðsbundnum dómi eða rafrænu eftirliti var fylgt eftir í tvö ár og athugað hvort þeir væru komnir með nýjan dóm til fullnustu þar sem dómþoli var dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi eða skilorðsbundið fangelsi með sérskilyrðum. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að Noregur var með fæstar endurkomur yfir heildina eða um 20% endurkomutíðni. Þar á eftir kom Ísland með 24% endurkomutíðni, Danmörk 26%, Svíþjóð 30% og Finnar 31%. Enn fremur sýndu niðurstöðurnar að Ísland var með bestu útkomuna í hópnum sem afplánar refsingu með samfélagsþjónustu eða sambærilegum úrræðum. Mér þykir mjög mikilvægt að draga það atriði fram því að í þeim hópi var endurkomutíðni aðeins um 16%. Auðvitað viljum við gera enn þá betur en það sýnir samt sem áður mikilvægi samfélagslegrar þjónustu. En í þeim tilvikum var endurkomutíðni yfir 20% í hinum löndunum.

Í frumvarpi til fullnustu refsinga sem nefnt var hér að framan er lögð til rýmkun á þessum úrræðum í ljósi þess hve vel þau hafa gefist. Þannig er lagt til að fleiri fangar munu eiga möguleika á að ljúka afplánun undir rafrænu eftirliti. Svo er ýmsar aðrar niðurstöður að finna í fyrrnefndri skýrslu en hana er hægt að nálgast á vef Fangelsismálastofnunar.

Spurt er um mjög mikilvægt atriði og það er: Hvaða aðstoð stendur föngum til boða eftir að afplánun lýkur? Í því sambandi var talað um húsnæðis- og atvinnumál og hvort litið hefði verið til grannríkjanna í þeim efnum. Þá get ég lýst þeirri skoðun minni að þarna er um að ræða mjög mikilvægan hluti, hvað verður um þessa aðila þegar afplánun lýkur, hvernig gengur þeim að komast aftur út í þjóðfélagið og komast hjá því að lenda aftur í þeim aðstæðum sem urðu til þess að þeir þurftu að fara í fangelsi? Hitt er svo annað mál að þetta er ekki alveg beint á verksviði innanríkisráðuneytisins þótt við höfum áhuga á því að fylgjast með því hvernig þessu vindur fram. Þarna erum við að tala um að einstaklingar sem ljúka afplánun fái almenna þjónustu í velferðarkerfinu og hverju sveitarfélagi fyrir sig þannig að sú aðstoð sem þar er um að ræða er á ábyrgð velferðarráðuneytisins. Ég hef hins vegar hafið, nú veit maður ekki hvort að má nota það orð, samtal, eða samráð við velferðarráðuneytið um að tengja saman þessa málaflokka. Mjög mikilvægt er að það sé gert þannig að það sem við gerum í réttarvörslukerfinu rími betur við það sem er gert í velferðarkerfinu til hagsbóta fyrir þá aðila sem lenda í þessum aðstæðum.