144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

betrun í fangelsum og aðstoð að lokinni afplánun.

586. mál
[19:03]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að styðja mjög vel við fanga þegar afplánun lýkur og gera allt sem hægt er til að þeir hafi að einhverju öruggu að hverfa, heimili, atvinnu eða fara í frekara nám hafi þeir stundað nám. Við verðum að leita allra leiða til að þeir fari ekki aftur í sama farið. Ef þeir sitja uppi án stuðnings við aðstæður sem þeir treysta sér ekki til að takast á við, svo sem miklar skuldir vegna fyrri óreglu, er mjög mikil hætta á að þeir missi fótanna og gerist aftur brotlegir við lög. Ótrúlega margir fangar fyllast vonleysi og lenda aftur í misnotkun vímuefna og afbrotum sem því fylgir. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir fangann og ekki síst samfélagið allt að rjúfa þann vonda vítahring.

Fjárhagslegi ávinningurinn fyrir allt samfélagið er gríðarlegur, ekki bara sá sem fylgir því að brotamaður hættir að valda öðrum og samfélaginu fjárhagslegum skaða með afbrotum sínum, heldur einnig sá að í fanganum býr mannauður sem nýtist til uppbyggilegra hluta og til að skapa verðmæti. Hver króna sem fer í að styðja fanga til náms og til atvinnu og í víðtækan stuðning eftir afplánun margfaldar sig.