144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

ráðgjafarnefnd um verndun hella.

620. mál
[19:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna áhuga hv. þingmanns um gang mála í ráðgjafarnefnd um hella, enda ekki óeðlilegt því eins og kom fram í máli hv. þingmanns setti hún nefndina á laggirnar meðan hún sat í sæti umhverfis- og auðlindaráðherra. Það kom fram í máli þingmannsins að ráðgjafarnefndin var skipuð í apríl 2013 og í þeirri nefnd sitja fimm fulltrúar. Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Hellarannsóknafélag Íslands eiga hver um sig einn fulltrúa en síðan eru formaður og varamaður formanns skipaðir af umhverfis- og auðlindaráðherra.

Nefndin hefur haldið níu fundi á þessum tveimur árum og þar af einn samráðsfund með stofnunum og félagasamtökum. Auk þess hefur nefndin átt ýmis önnur samskipti.

Við getum verið sammála um að hellavernd er afar mikilvægt náttúruverndarmál hér á landi. Ísland er ríkt af hellum, sérstaklega hraunhellum sem eru sjaldgæfir á heimsvísu. En þá eru hellar einnig áhugaverðir fyrir ferðamenn og eftirsóttir og eru nokkrir hellar hér á landi þegar nýttir í stórum stíl af ferðaþjónustunni. Hellaskoðun er einnig vaxandi hluti af almennri útivist.

Hér hefur komið fram að markmið með starfi nefndarinnar er að styrkja framgang hellaverndunar hér á landi, m.a. með því að fylgja eftir tillögum fyrri nefndar ráðuneytisins um hellamál sem starfaði frá nóvember 2012 til apríl 2013. Ég verð að segja að þessi tillaga um stefnumörkun um verndun hella sem ég er hér með finnst mér afar áhugavert plagg og ég er einnig mjög ánægð með þær tillögur og hugmyndir sem hér eru settar fram, t.d. flokkunina og ég þarf ekki að fara yfir hana, þingmaðurinn gerði það áðan. Svo leggur nefndin til að auki átta tillögur og ein af þeim er einmitt um þá ráðgjafarnefnd sem þáverandi ráðherra setti á laggirnar með hraði og ekki nema allt gott um það að segja.

Þá er spurt: Hvað svo? Ég tel að með störfum nefndarinnar hafi málefni um hellavernd þegar öðlast meiri sýnileika almennt í stjórnkerfinu. Vitaskuld hefur nefndin unnið að þeim ákveðnu viðfangsefnum sem eru tilgreind en hins vegar verður að segja að nefndin var skipuð ótímabundið, það var enginn gildistími settur á hana þegar hún var sett á laggirnar. En ég tel eins og hér hefur komið fram mikilvægt að unnið sé að málum um hella, bæði hvað varðar verndun þeirra og hvernig við sjáum fyrir okkur nýtingu þeirra í ferðaþjónustu og almennri útivist og þar er maður náttúrlega nokkuð smeykur ef svo má að orði komast. Þess vegna er algerlega nauðsynlegt að allt þetta sé kortlagt og gengið vel um dyr.

En til að ljúka þessu er hægt að segja að við í ráðuneytinu erum einmitt með til skoðunar hvernig við viljum standa frekar að þessari vinnu og hvar henni verður best komið fyrir til framtíðar og hvernig, og einnig hvort ráðgjafarnefnd eins og sett var á laggirnar sé rétta formið eða hvort rétt sé að hafa það með öðrum hætti.