144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

ráðgjafarnefnd um verndun hella.

620. mál
[19:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég velti aðeins fyrir mér, mér fannst það kannski ekki koma nægilega skýrt fram í máli ráðherrans, svo ég spyr bara beint og hreint út. Nú er í skýrslunni árið 2013, það eru tvö ár síðan, lagt til að ákvæði um verndun hella verði styrkt í náttúruverndarlögum. Ég vil spyrja ráðherrann um hvort það sé í farvatninu og komið verði á gagnagrunni um hella, hvort eitthvað hafi verið gert í því. Einnig hvort fræðsla til almennings hafi verið aukin og þar með væntanlega að upplýsingar um tilvist og hlutverk ráðgjafarnefndarinnar liggi fyrir með sýnilegum hætti á vef ráðuneytisins eða hvernig því hafi verið fyrir komið. Síðan vil ég spyrja um tillöguna um að starfsmenn verndarsvæða og aðrir leiðsögumenn um hella hljóti sérstaka fræðslu um umferð í hella, hvort sú fræðsla hafi átt sér stað, hún hefur þá væntanlega verið á vegum Umhverfisstofnunar ef af henni hefur orðið.

Hæstv. ráðherra veltir upp þeirri spurningu í lok máls síns hvort ráðgjafarnefnd sé rétta leiðin. Í stjórnsýslunni og í verkefnum okkar í þjónustu við almenning þarf auðvitað alltaf að velta fyrir sér hvort við séum að fara rétta leið en ég vil spyrja um það í hvaða farvegi sú vinna er og mat á því hvort ráðgjafarnefnd sé rétt leið og hverjir komi að því að meta hvort ráðgjafarnefnd sé gott verkfæri í þágu verndunar hella. Síðan vil ég í blálokin að spyrja hæstv. ráðherra um það hvort ráðgjafarnefnd hafi fengið mikið af erindum og hvort hún hafi fengið verkefni og hvort eitthvert mat hafi verið lagt á hversu vel hún hafi nýst í þágu þessara markmiða.