144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum.

657. mál
[19:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er með fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra um endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum, eins og fram hefur komið, og snýst fyrirspurnin um það hvort ráðherra telji rétt að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum með það að markmiði að stytta gildistíma matsins og auka aðkomu grasrótarsamtaka að ferlinu í samræmi við Árósasamninginn.

Þessi fyrirspurn mín er nokkuð í samræmi við frumvarp til laga sem hefur verið dreift í þinginu en hefur ekki fengist mælt fyrir vegna þess að það er mikill stabbi af uppsöfnuðum málum sem ekki hafa enn komist til nefndar en það var áður flutt á síðasta löggjafarþingi. Meginatriði þess máls er að gildistími umhverfismats Skipulagsstofnunar vegna framkvæmda styttist úr tíu árum í sjö ár, þ.e. 1. mgr. 12. gr. orðist þá svo, með leyfi forseta:

„Ef framkvæmdir hefjast ekki innan sjö ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skal viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt […]“

Það sem hér liggur í raun og veru til grundvallar er kannski fyrst og fremst sú staðreynd að í sífellt ríkari mæli hefur það gerst að það eru áhöld um það hvort aðstæður hafi breyst frá því að umhverfismat er gert og þar til kemur að útgáfu framkvæmdaleyfis. Þá er mjög oft um að ræða svæði sem hafa einhvers konar verndargildi eða það er að minnsta kosti álitamál hvert verndargildið sé og hvort mótvægisaðgerðir sem koma fram í matinu séu nægilegar o.s.frv.

Mér er kunnugt um að þegar alveg fyrst var mælt fyrir frumvarpi til laga um mat á umhverfisáhrifum var gert ráð fyrir að um væri að ræða sjö ár en þau urðu síðan tíu í meðförum þingsins þannig að hugsunin hefur verið þar á sínum tíma. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvaða afstöðu hún hafi til þessa vegna þess að ég vænti þess að við deilum þeirri sýn að vilja að allar upplýsingar séu sem gleggstar áður en leyfi er gefið út og að við gætum þess að byggja ekki jafnvel leyfi á upplýsingum sem eru komnar til ára sinna eða eru að minnsta kosti áhöld um að hafi staðist tímans tönn. Ég vík kannski í minni seinni ræðu undir þessum lið að aðkomu grasrótarsamtaka (Forseti hringir.) í samræmi við Árósasamninginn en fyrst er sem sagt þessi hluti fyrirspurnarinnar.