144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum.

657. mál
[19:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er mjög mikilvægt að stöðugt mat standi yfir og endurmat á því hvernig þessi lög virka fyrir Ísland og íslenskt umhverfi, lögin um mat á umhverfisáhrifum. Í máli hæstv. ráðherra kemur fram að OECD hafi sérstaklega bent á að það mætti skoða sérstaklega tímafrestina og ýmislegt sem lýtur að skilvirkni, heildstæðri nálgun, verkferlum o.s.frv. Ég fagna því ef hæstv. ráðherra hyggst skoða lögin með hliðsjón af þessu og ég held raunar að það sé alltaf mikilvægt með löggjöf sem lýtur að skipulagsmálum að hún sé sem gagnsæjust. Þetta er mikill frumskógur og oft er sveitarfélögunum heilmikil þraut að fara í gegnum þessa miklu ferla og fresti, kynningarfundi o.s.frv. þannig að það er bara stöðugt og vakandi viðfangsefni sem við vinnum í samráði við sveitarfélögin á hverjum tíma.

Það kann að vera rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta hafi verið sex ár í upphafi frekar en sjö en eins og ráðherrann segir er það ekki stærsta málið heldur að það var upphaflega hugsað skemur en þessi tíu ár.

Hæstv. ráðherra vék aðeins að síðari hluta spurningar minnar varðandi Árósasamninginn og það er auðvitað rétt sem hún segir að Árósasamningurinn er opinn og sveigjanlegur og allt það og einmitt þess vegna tel ég fulla ástæðu til að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að skrifa það skýrar inn í löggjöfina um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti óskað eftir endurskoðun til viðbótar við framkvæmdaraðila og leyfisveitanda í samræmi við ákvæði Árósasamningsins (Forseti hringir.) um aukna þátttöku almennings í ákvörðunum á sviði umhverfismála. Ég held að það væri góð og táknræn viðbót við okkar skilning á Árósasamningnum.