144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjármögnun útgjalda til málefna fatlaðs fólks.

639. mál
[20:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mig langar til að ræða við hæstv. ráðherra um þjónustu við fatlað fólk, þann málaflokk sem var færður yfir til sveitarfélaganna árið 2011. Nú skal engin dul dregin á það að kvartað hefur verið yfir því að tilfærslunni hafi ekki fylgt nægilegir fjármunir en ég hef séð það haft eftir ráðherra að hún telji svo ekki vera. Gagnrýnin hefur verið svolítið grimm og jafnvel farið að tala um að skila þessu til baka til ríkisins. Ég er ánægð með svör ráðherrans að hún taki það ekki til greina af því að mér finnst það ekki skynsamlegt og ég held í rauninni að það sé ekki það sem sveitarfélögin vilja. Þau vilja auðvitað hafa þetta hjá sér því þjónustan hefur eins og við vitum gengið með ágætum eins og maður segir, svo langt sem það nær.

Hugmyndin var sú að færa þjónustuna í nærsamfélagið og bæta hana, laga að þörfum notenda, gera hana heildstæða, styrkja sveitarstjórnarstigið og tryggja góða meðferð fjármuna. Við fjárlagagerðina kom fram mikil gagnrýni af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga og telur sambandið að það vanti allt upp undir 3 milljarða í málaflokkinn til að dæmið gangi upp og halda megi uppi þeirri þjónustu sem nú er veitt og þyrfti að veita samkvæmt þeim sáttmálum sem eru í gildi. Talað er um að það séu rúmlega 4 þús. notendur á þeim þjónustusvæðum sem skilgreind eru í landinu og um 15% fjölgun hafi orðið á þeim tíma sem liðinn er frá yfirfærslunni, 6% fjölgun í hópi fullorðinna og 30% í hópi barna. Síðan hefur þjónustuþáttum gagnvart mörgum notendum fjölgað, þjónustustigið hækkað, og er m.a. vitnað í framkvæmdaáætlun um þjónustu fyrir fatlað fólk. Þrátt fyrir þetta virðist því miður ekkert benda til þess að biðlistarnir hafi styst. Sambandið bendir meðal annars á lengda viðveru fatlaðra barna í skólum sem kosti í kringum 500 millj. kr. og hafi hækkað töluvert mikið. Á sínum tíma fluttust í kringum 89 millj. kr. frá ríkinu vegna þessa verkefnis og jöfnunarsjóður hefur deilt þeirri fjárhæð út. Fram kemur að miðað við núverandi útgjöld ríkisins nái sú kostnaðarhlutdeild ekki nema 18%, sem er töluvert langt frá þeim helmingaskiptum sem lagt var upp með á sínum tíma og gengið út frá.

Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. ráðherra:

Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þeirri stöðu í fjármögnun útgjalda til málefna fatlaðs fólks sem komið hefur fram í gagnrýni byggðasamlaga á Vestfjörðum og Norðurlandi, einkum með tilliti til endurmats Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á útgjaldaþörf vegna málaflokksins?