144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa að ég er orðin svolítið stressuð. Fyrir þinginu liggja fjölmörg mál, mörg hver mjög aðkallandi. Þá vil ég fyrst nefna húsnæðismálin. Þau frumvörp verðum við að afgreiða á næstu dögum og vikum. Ég geng út frá því að við sem í þessum sal sitjum viljum öll það sama, þ.e. að vinna vel fyrir land og þjóð, afgreiða góð mál og bæta ásýnd Alþingis. Hvernig má það þá vera að ítrekað þurfi maður að vera í þessum virðulega fundarsal Alþingis og hlusta á röfl — vil ég leyfa mér að segja, herra forseti — þingmanna, undir liðnum fundarstjórn forseta. Að mínu mati er um misnotkun á þeim fundarlið að ræða.

Í gær var til dæmis talsverðum tíma eytt í að ræða fjarveru leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Herra forseti, mér blöskraði sú umræða. Ég tel eðlilegt að menn óski eftir upplýsingum um hvar leiðtogarnir séu staddir, en þegar svarið liggur fyrir þurfa menn ekki að halda áfram að tala um það sama. Þá eru menn vísvitandi farnir að tefja störf þingsins og beita hinu gamalgróna málþófi.

Einstakir þingmenn, sem kenna sig við ný stjórnmál og segjast á hátíðarstundum hafna gamalli pólitík, virðast ekki vera neinir eftirbátar annarra í þessum efnum. Það er umhugsunarvert. Ef við meinum það sem við segjum, ef við viljum raunverulega koma góðum málum áleiðis og bæta ásýnd þingsins verðum við að sýna það í verki. Við þurfum að klára verkefnin og vinna vinnuna okkar. Ef við nýtum ekki tímann til gagns þá verðum við hér fram eftir sumri. Það liggur bara beint við.