144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að ræða um fyrirhugað brotthvarf Reykjavíkurflugvallar af þeim stað þar sem hann er núna. Það er ljóst að landsmenn allir hafa áhyggjur af því sem er að gerast þar núna og ég fór reyndar á vettvang í gær, ég fór upp að Hlíðarenda til þess að sjá með eigin augum þær framkvæmdir sem þar eru hafnar. Þar voru stórvirkar vinnuvélar að störfum að grafa upp jarðveg þannig að það er alveg ljóst að því verður haldið til streitu að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki til frambúðar á þessum stað.

Í gildandi skipulagi Reykjavíkurborgar kemur fram að árið 2022 á að loka austur/vestur-brautinni sem er lengsta brautin og árið 2024 á að loka vellinum alveg. Við erum í þeirri stöðu í dag að það er ekki búið að finna nýtt vallarstæði. Það er leitað með logandi ljósi að stað sem gæti uppfyllt þau skilyrði sem er að finna á Reykjavíkurflugvelli, en sá staður finnst ekki. Það er grafalvarlegt mál.

Svo má líka koma inn á það að meira en 80% íbúa utan höfuðborgarsvæðis vilja að völlurinn sé á þessum stað vegna þess að hann skiptir máli fyrir aðkomu þeirra að allri þjónustu í Reykjavíkurborg og að heilbrigðismálum og öryggisþjónustu. 72% Reykvíkinga vilja það líka. Það fór fram skoðanakönnun meðal landsmanna þar sem 70 þús. manns lýstu yfir vilja sínum til þess að völlurinn yrði áfram á þessum stað.

Ég hef verulegar áhyggjur af því á hvaða leið við erum og hvort hægt verður að stöðva þessa þróun og í hvaða stöðu við verðum þegar öryggismál landsmanna eru í uppnámi.