144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég tek ekki undir með jafnaðarmönnum sem gera lítið úr orlofi húsmæðra, en ástæða þess að ég kem hingað upp er sú að ég [Háreysti í þingsal.] vildi vekja [Kliður í þingsal.] athygli á því að — herra forseti, fæ ég hljóð? (Forseti hringir.) Ég vildi vekja athygli á því að nú á föstudaginn langa var hald lagt á 20 kíló af sterkum fíkniefnum á Keflavíkurflugvelli sem er meira magn en haldlagt var allt árið í fyrra. Þessum árangri er náð, eftir því sem segir í fréttatilkynningu frá lögreglunni, með samvinnu margra aðila í löggæslu og tollgæslu og hann ber vitni um þá fagmennsku og þá árvekni sem starfsfólk þar suður frá og víðar í kerfinu býr yfir og þá þekkingu sem það hefur á málaflokknum.

Góður vilji þessa fólks, árvekni þess og fagmennska fram í fingurgóma dugar ekki til vegna þess að þessi starfsemi hefur verið fjársvelt árum saman og mjög brýnt að þverpólitísk samstaða myndist um að auka fjárheimildir til þessa málaflokks. Það er þannig að á árinu í fyrra var mun minna af fíkniefnum haldlagt en mörg undanfarin ár. Því miður er það ekki vegna þess að fíkniefnaneysla hafi minnkað á Íslandi, það er vegna þess að viðbúnaðurinn er ónógur og við þurfum að bæta þar úr.

Við vitum öll hvaða afleiðingar fíkniefnaneysla, sérstaklega á sterkum efnum eins og þeim sem tekin voru í Leifsstöð um daginn, hefur. Þetta er ávísun á eyðileggingu margra mannslífa, líf ungs fólks eyðileggst. Við höfum ekki efni á því, Íslendingar, að missa unga fólkið okkar í þetta svarthol. Þess vegna þurfum við að taka höndum saman og auka fjárheimildir rösklega til toll- og (Forseti hringir.) löggæslu, sérstaklega á Keflavíkurflugvelli, þar sem (Forseti hringir.) um 90% alls farþegaflugs fara um.