144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú liggur fyrir þinginu frumvarp um fjármálafyrirtæki. Það gengur meðal annars út á að leyfa aukna kaupauka og bónusa í fjármálafyrirtækjum, sem sú sem hér stendur talaði alfarið á móti þegar það mál var rætt fyrir skömmu, þ.e. að menn færu aftur í þá hringavitleysu að spenna upp bónusa og kaupauka í fjármálakerfinu, eins gæfulegt og það var nú þegar það allt gekk yfir. Það er ánægjulegt að Framsóknarflokkurinn hefur samþykkt að vera á móti þessum kaupaukum og bónusum, (Gripið fram í.) að hann sé að færa sig til vinstri og sé sammála þeim röddum í stjórnarandstöðunni sem tala alfarið gegn því að þetta fari aftur í þann farveg. Þá lít ég svo á að málið sé í raun og veru dautt hvað það varðar og að sá þáttur verði tekinn út þegar málið verður til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem það er núna, ef framsóknarmenn standa við stóru orðin eins og þeirra er von og vísa, ég trúi ekki öðru.

Ég tel að það sé líka mjög mikilvægt að á Íslandi séu bankar sem sýni samfélagslega ábyrgð varðandi umhverfismál og hafi sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Við vinstri græn höfum talað fyrir slíku. Slíkir bankar eru starfandi annars staðar á Norðurlöndunum þar sem starfsemin byggist á grænum gildum og þeir vinna að því að gera samfélagið sjálfbært.

Það er hlægilegt að hlusta á forsvarsmenn fjármálafyrirtækja líkja bónusum og kaupaukum í bönkum við bónusa í sjávarútvegi, í frystihúsunum þar sem bónusinn plús grunnlaun eru bara brot af því sem þeir bónusar voru sem tíðkuðust í fjármálastofnunum landsins, svo þar er ekki líku saman að jafna. Það væri gaman að vita hvaða skoðun Seðlabanki Íslands, (Forseti hringir.) sem hefur miklar skoðanir á kaupkröfum láglaunafólks, hefur á kaupaukum í fjármálastofnunum.