144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég held að fáir andmæli þeim orðum að Reykjavíkurflugvöllur er einhver mikilvægasta þjóðbraut í okkar landi. Við búum í landi þar sem veðurfar er mjög óstöðugt, við búum í landi sem er stórt að flatarmáli miðað við íbúafjölda og það er langt að fara. Við búum í landi þar sem byggð er mjög dreifð og samgöngur erfiðar, sérstaklega yfir vetrartímann. Við búum í landi þar sem bráðaþjónusta á heilbrigðissviði hefur í auknum mæli verið færð á einn stað, þ.e. til Reykjavíkur. Hins vegar erum við svo heppin að í höfuðborginni okkar, í Vatnsmýrinni, er flugvöllur sem hentar afar vel til flugstarfsemi. Víðtæk samstaða ríkir milli landsmanna að stórum hluta um þessa lífæð eða þjóðbraut okkar Íslendinga. Flugvöllurinn gerir það að verkum að fólk sem býr úti á landi veit að ef bráð veikindi ber að höndum og senda þarf sjúkling með sjúkraflugi muni flugvél geta lent á Reykjavíkurflugvelli undir flestöllum kringumstæðum og sjúklingurinn verða kominn undir læknishendur á Landspítala – háskólasjúkrahúsi innan nokkurra mínútna frá lendingu. En á sama tíma ekur maður eftir Hringbrautinni og horfir á skurðgröfur sem eru að undirbúa íbúðabyggð þétt við flugvöllinn sem mun þýða, ef fram heldur sem horfir, að svokölluð neyðarbraut þarf að víkja, auk þess sem flugvöllurinn í heild sinni er alls ekki uppi á pallborði hjá núverandi borgaryfirvöldum. Ég spyr: Hvaða hagsmunir vega þyngst hér? Mér finnst svarið blasa við. Það eru þjóðarhagsmunir og samkvæmt þeim eigum við að sjálfsögðu að haga okkar málum.