144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér var nú eiginlega hálfmisboðið hér áðan undir ræðum hv. þingmanna Silju Daggar Gunnarsdóttur og Elsu Láru Arnardóttur þar sem þær voru með dylgjur um að þingmenn ynnu ekki vinnuna sína af fullum heilindum heldur stæðu hér fyrir málþófi eða röfli um óþörf mál svo sem um fundarstjórn forseta. Það er eðlilegt að setja fram gagnrýni líkt og við gerðum í gær undir liðnum um fundarstjórn forseta á að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra væru ekki staddir hér þegar þing kom saman að afloknu páskahléi til þess að ræða við þingið um ýmis mikilvæg mál sem varða samfélagið allt, svo sem um verkföll fjölmargra hópa og afnám gjaldeyrishafta. Í mínum huga eru það gríðarlega mikilvæg mál sem er sjálfsagt og fullkomlega eðlilegt að við köllum eftir að tekin verði á dagskrá og einmitt undir þessum lið. (Gripið fram í.) Það þarf hins vegar að ræða þau um leið og þing kemur saman.

Það er hins vegar alveg rétt sem fram kom í máli hv. þingmanna að fjölmörg mál bíða afgreiðslu þingsins og þingdagarnir sem við höfum úr að spila eru fáir. En það sem er í mínum huga þó enn alvarlegra er að við höfum ekki fengið til þingsins þingmál frá ráðherrum sem þó hafa verið boðuð allt frá haustdögum eða frá upphafi þessa þings og ber þar hæst stóru húsnæðismálin frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra.