144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, í fjarveru 1. flutningsmanns málsins, hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Flutningsmenn að tillögunni eru auk hans sú sem hér stendur og hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson og Birgitta Jónsdóttir. Við leggjum tillöguna fram fyrir hönd stjórnarandstöðunnar í kjölfar þess bréfs sem hæstv. utanríkisráðherra sendi til Brussel um að aðildarviðræðum við Evrópusambandið væri lokið. Upphófust í kjölfarið talsverðar deilur um merkingu þess bréfs og hvað nákvæmlega það merkti en segja má að öll sú umræða hafi orðið til þess að við sem leiðum flokkana sem skipa stjórnarandstöðuna ákváðum að rétt væri að sameinast um tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er raunar ekki nýlunda því allir þessir flokkar hafa lagt til einhverjar slíkar tillögur áður í þessum umræðum.

Tillagan er sú að það eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla 26. september 2015 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Eftirfarandi spurning verði borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu:

„Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“

Ekki þarf að hafa mörg orð, þó að það væri hægt, um efnisatriðið sem hér er til umræðu, aðild að Evrópusambandinu, en það liggur algerlega fyrir að það hefur verið eitt stærsta deiluefnið í íslenskum stjórnmálum í allmörg ár. Segja má að ég hafi tekið þátt í þeirri umræðu allt frá því að ég var skipuð í Evrópunefnd sem leidd var af Birni Bjarnasyni, fyrrverandi hv. þingmanni og hæstv. ráðherra, árið 2003 sem skilaði af sér skýrslu árið 2007 um samskipti Íslands og Evrópu og samskiptin við Evrópusambandið. Það er í raun merkilegt að við erum enn ekki búin að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem þar voru settar fram um að styrkja samskiptin þannig að við eigum enn í vandræðum þegar kemur til að mynda að innleiðingu EES-gerða. Í þinginu að undanförnu hefur verið talsvert til umræðu sá innleiðingarhalli sem er talað um í tengslum við innleiðingu EES-gerða, og það er ekki síst vegna þess að tillögum um eflingu samskiptanna var aldrei hrint í framkvæmd. Það er alveg ljóst að þegar um er að ræða alþjóðleg samskipti á borð við þau sem við eigum í vegna EES-samningsins skiptir máli að þeim sé sinnt af báðum aðilum og í þau sé lagður mannafli, tími og fé.

Að sjálfsögðu var spurningin um Evrópusambandið áberandi þegar áðurnefnd skýrsla var gerð og hún var líka uppi á borðum í Evrópunefndinni hinni síðari sem ég tók þátt í og var leidd af þáverandi og núverandi hv. þingmönnum Ágústi Ólafi Ágústssyni og Illuga Gunnarssyni. Síðan var ákveðið árið 2009 eins og kunnugt er og eins og við höfum rætt alloft í þessum sal að leggja fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu til að þjóðin gæti tekið þá ákvörðun hvort hún vildi verða aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Síðan var gert hlé á viðræðum og á þessu kjörtímabili hefur því hléi verið viðhaldið, getum við sagt. Hér var lögð fram tillaga til að afturkalla umsóknina í fyrra en hún dagaði uppi í þinginu, henni var vísað til hv. utanríkismálanefndar en umræðu um hana var aldrei lokið. Segja má að það sé aðdragandinn að hinu umrædda bréfi sem sent var á dögunum til Brussel.

Okkar tillaga snýst hins vegar ekki um hvort taka eigi efnislega afstöðu til Evrópusambandsins eða ekki. Hún snýst um að við leitum leiðsagnar þjóðarinnar í þessu máli. Það má velta því fyrir sér í ljósi þess sem ég hef sagt að allt frá því að Ísland varð aðili að EES-samningnum má segja að spurningin um aðild að Evrópusambandinu hafi verið lifandi í íslenskum stjórnmálum, hún hefur verið umdeild og til umræðu reglulega og verður það líklega áfram. Það varð því niðurstaða mín og fjöldamargra annarra sem teljum að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan að réttast væri að fá einhvern botn í umræðuna, leiða málið til lykta, og besta leiðin til þess væri að fá þjóðina til þess að gefa upp afstöðu sína í atkvæðagreiðslu um samning. Sú varð hins vegar ekki raunin þegar gert var hlé á viðræðunum þannig að segja má að hér sé lögð til ákveðin málamiðlun um að leitað verði til þjóðarinnar um leiðsögn. Í tillögunni er lagt til að spurt verði um framhaldið. Þetta er auðvitað tillaga fjögurra flokka. Ég tek það fram að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ekki séð því neitt til fyrirstöðu að slíkar spurningar yrðu jafnvel fleiri, þ.e. leitað yrði ítarlegri leiðsagnar og varpað fram fleiri spurningum til þjóðarinnar. En við erum sátt við að þetta sé spurningin sem borin verði upp, þ.e. spurt verði um það hvort fólk vilji ljúka viðræðum þannig að það geti sjálft tekið ákvörðun um þetta stóra mál.

Fyrir mjög marga sem hafa tekið þátt í umræðunni er þetta ákveðinn prófsteinn á lýðræðisþróun. Þetta er gríðarlega stórt mál, margar hliðar á því og eins og ég hef gjarnan sagt, Evrópusambandið er ekki statískt fyrirbæri, það þróast, það hefur gengið í gegnum pólitískar sveiflur rétt eins og þjóðríki ganga í gegnum pólitískar sveiflur. Stefnumörkun þess á 9. áratugnum og 10. áratugnum var mjög mörkuð af uppgangi frjálshyggjunnar eins og pólitík almennt, til að mynda í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þeirrar pólitíkur gætti líka í Evrópusambandinu og hafði mikil áhrif til hægri sem gerir að verkum að ég hef t.d. verið mjög krítísk á uppbyggingu fjármálakerfisins innan Evrópusambandsins og tel að gallar þess hafi birst í því hvernig Evrópusambandið hefur tekið á þeirri kreppu sem hefur gengið yfir. En það eru líka jákvæðir hlutir sem koma frá Evrópusambandinu, við getum rætt um ýmis framfaramál svo dæmi sé tekið á sviði umhverfismála sem við hefðum að sjálfsögðu getað gert sjálf en höfum að einhverju leyti innleitt í gegnum EES-gerðir fyrir áhrif frá Evrópusambandinu. Í þessum efnum hefur spurningin að mínu viti verið: Hvaða afstöðu höfum við til að taka þátt í þessu ríkjasambandi og erum við reiðubúin að gera það með þeim kostum og göllum sem því fylgja? Niðurstaða minnar hreyfingar hefur verið neikvæð í þeim efnum. Aðrir flutningsmenn tillögunnar eru ekki endilega sammála mér um það en við erum sammála um að rétt sé að leita leiðsagnar þjóðarinnar í þessu stóra og mikilvæga máli og viðurkenna það að íslensk pólitík hefur breyst, hún hefur breyst gríðarlega mikið á undanförnum árum og áratugum og við eigum að fagna þeirri kröfu sem er uppi í samfélaginu um aukið lýðræði. Við eigum að fagna þeirri kröfu.

Ég vil setja tillöguna í samhengi við það að við sitjum nú nokkrir þingmenn, fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, saman í stjórnarskrárnefnd sem er ætlað að gera tillögur til breytinga á stjórnarskrá Íslands. Ég vona svo sannarlega að það náist sátt á milli flokka hér á þingi um að hrinda þeim breytingum í framkvæmd. Eitt af því sem við ræðum þar eru þjóðaratkvæðagreiðslur, að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál þannig að þau verði borin undir þjóðina, að ekki þurfi neina milliliði til að hrinda slíkum atkvæðagreiðslum í framkvæmd heldur að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti hreinlega krafist þess. Það er eðlilegt ákvæði að mínu viti eftir þá þróun sem hefur orðið í lýðræðismálum og með breyttum vinnubrögðum sem við þingmenn eigum að fagna. Því ég tel svo sannarlega ekki að þetta rýri á nokkurn hátt það fulltrúalýðræði sem við byggjum samfélag okkar á heldur styrki það og veiti okkur sem hér störfum mikilvægt aðhald að þjóðin hafi þessa leið. Ég vona að það verði niðurstaða stjórnarskrárnefndarinnar og ég vona að það verði niðurstaða Alþingis og þjóðarinnar. Ef við setjum það mál sem við ræðum hér í þetta samhengi væri ekki ólíklegt að þjóðin gæti einmitt krafist atkvæðagreiðslu um það án þess að við hefðum neitt um það að segja. Við getum velt því fyrir okkur hvort við séum ekki reiðubúin að setja einmitt þetta mál í þann farveg og þora að leita leiðsagnar þjóðarinnar hvað hún vill gera, hvert hún vill fara og vera reiðubúin til að vinna samkvæmt þeim vilja, óháð eigin afstöðu. Það er auðvitað stóra klípan þegar við aðhyllumst og viljum verja beint lýðræði og áhrif almennings að almenningur er ekki endilega alltaf sammála manni sjálfum. Það getur verið flókin afstaða og ég hef orðið vör við það í þessum sal þar sem ég hef ítrekað verið spurð um hvernig það geti farið saman, að vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem maður sé sjálfur á móti.

Herra forseti. Mér finnst það ekki vandamál. Í þessu tilviki tel ég að lýðræðisrökin vegi þyngst, að málið sé af þeirri stærðargráðu og á því séu svo margar hliðar að eðlilegt sé að við leitum leiðsagnar þjóðarinnar og föllumst á að hlíta lýðræðislegri leiðsögn hennar. Það er í þeim anda sem ég tala fyrir þessari tillögu. Ég veit hins vegar að við getum verið ósammála um Evrópusambandið eins og ég hef gert grein fyrir en það breytir því ekki að ég held að við gætum orðið sammála um þetta. Ég vitna til þess að á bak við þessa tillögu eru formenn allra flokka stjórnarandstöðunnar, en ég vitna líka til þess að fyrir síðustu kosningar gáfu forustumenn ríkisstjórnarflokkanna loforð um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald þessa máls. Og það er alveg sama hvað menn geta sagt eftir á, allt er þetta til og auðvelt að fletta upp og ég þarf ekki að fletta því upp því ég sat marga fundi með formönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þar sem þessu var lofað og meira að segja sagt af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins að það gæti nú farið vel á því að hafa slíka þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabilsins og við erum komin fram yfir þann tíma.

Út frá því sem sagt var fyrir kosningar hefði ég talið að hægur vandi væri að efna það loforð og halda slíka atkvæðagreiðslu þannig að leiðsögn þjóðarinnar lægi þó a.m.k. fyrir. Þá kem ég að því, þótt tíminn sé stuttur, að menn hafa sagt að það sé hins vegar pólitískur ómöguleiki eins og það hefur verið orðað, það ágæta nýyrði „ómöguleiki“ var sett fram í kringum þessa umræðu, að framfylgja stefnu sem ríkisstjórnin sé ekki sammála. Já, það er flókið, ég skal viðurkenna það fyrst manna, það er klípa eins og ég sagði áðan að þurfa að hlíta niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem maður er ekki sammála. Auðvitað er það flókið og klípa. En mér finnst það ekki ómöguleiki því eins og ég sagði áðan vega lýðræðisrökin þyngst í málinu. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt að minna á að þessi ómöguleiki hefði átt að vera forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna ljós fyrir kosningar þegar þeir töluðum með þessum hætti, þegar þeir lofuðu atkvæðagreiðslu um málið. Varla hefur það runnið upp fyrir þeim eftir að þeir settust í ríkisstjórn að þetta gætu þeir ekki gert. Ég trúi ekki öðru en þeir hafi hugsað loforð sín fyrir kosningar betur en svo að korter eftir kosningar hafi þeim orðið ljóst að þetta væri ómöguleiki.

Með því að taka þessa tillögu til umræðu hér og til umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd treysti ég á að við fáum a.m.k. samræðu um hvaða leið menn sjá til þess að leiða þetta mál til lykta með einhverjum hætti, að tryggja að leitað verði leiðsagnar þjóðarinnar eins og allir flokkar hafa talað fyrir og við finnum skynsamlega lausn á málinu, hleypum því ekki í þann átakafarveg sem mér finnst það hafa verið í. Vissulega gætu einhverjir sagt og munu vafalaust segja: Evrópusambandið er þannig mál að það mun alltaf vera í átökum og hefur verið víða annars staðar þar sem þetta hefur verið til umræðu. Þegar við skoðum það er myndin samt ekki svo einlit. Við höfum séð ríkisstjórnir standa að slíkum samningaviðræðum þar sem hafa verið flokkar sem ekki hafa verið sammála um að ganga í Evrópusambandið. Það er nú svo og þótt menn hafi stundum viljað halda öðru fram þá er það bara ekki rétt. Þannig að þetta er fjölbreytt mynd. Ég vonast til þess að menn í þessum sal og á vettvangi hv. utanríkismálanefndar séu reiðubúnir að ræða tillöguna málefnalega og helst með það að markmiði að við getum sameinast um að leita leiðsagnar þjóðarinnar í flóknu og erfiðu máli þar sem hliðarnar eru margar og verið reiðubúin að gera það þrátt fyrir skoðanir flokka okkar og skoðanir hvers og eins okkar á þessu stóra máli.

Að svo mæltu legg ég til að málinu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar að lokinni þessari umræðu.