144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. framsögumanni málsins fyrir ágæta ræðu þar sem víða var komið við.

Nú liggur fyrir sú afstaða hv. þingmanns að hún og meðflutningsmenn hennar vilja kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þá spurningu hvort halda beri áfram viðræðum. Þá vil ég inna hv. þingmann eftir því hver afstaða hennar er til þeirrar spurningar, hvort hún telji rétt að halda áfram viðræðum og ef svo er, hvort hv. þingmaður telur að það eigi að gera á óbreyttum forsendum, þ.e. á sömu forsendum og skilið var við málið í janúar 2013, eða hvort hún telur að forsendur hafi með einhverjum hætti breyst á þeim tíma sem liðinn er þannig að ástæða sé til að fara yfir það hvort farið verði til viðræðna af hálfu Íslands að nýju á sömu forsendum eða breyttum forsendum frá því sem þá lágu fyrir.