144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur auðvitað fyrir að ef þjóðin ákveður að taka þráðinn upp að nýju, eins og lagt er til í þessari tillögu að hún verði spurð um, þá þarf auðvitað að fara yfir stöðu mála. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það hefði verið óskandi að afstaðan í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum hefði legið fyrir fyrr í ferlinu, en ef við ætlum að hefja það á nýjan leik finnst mér í raun sjálfgefið að þá þarf að fara yfir stöðuna og kanna hvað af því sem þegar hefur verið gert stendur enn óbreytt og hvað ekki. Mér finnst það liggja fyrir af því að í svona ferli erum við ekki statískar stærðir þar sem ekkert breytist.