144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:24]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ræðu hennar um þessa þingsályktunartillögu. Ég verð að segja að ég fagna því verulega að hv. þingmaður telji núna ástæðu til að leita leiðsagnar þjóðarinnar í þessu mikilvæga máli. Ég fagna því líka að forustumenn Samfylkingarinnar vilji nú leita leiðsagnar þjóðarinnar í þessu efni vegna þess að það var það sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði upp með árið 2009, að leitað yrði leiðsagnar þjóðarinnar um hvort hefja ætti aðildarviðræður við Evrópusambandið eður ei og bera síðan þann samning sem heim kæmi undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Því var hafnað af þáverandi formönnum og þingmönnum bæði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Þess vegna er ástæða til að fagna þeim sinnaskiptum sem orðið hafa í þessum herbúðum á þeim árum sem liðin eru frá því að ferlið var hafið 16. júlí 2009.

Mínar skoðanir eru ljósar í þessu máli. Ég er þeirrar skoðunar eins og ég var árið 2009 að leggja eigi það til við þjóðina og leita leiðsagnar hennar í þessu stóra máli. Þess vegna fagna ég þeim sinnaskiptum sem hér hafa orðið og vonast til þess að umræður um þingsályktunartillöguna verði í þá veru að ræða það hvort þingheimur hefur kjark til að leita leiðsagnar þjóðarinnar eða hvort við ætlum að flækja þetta mál enn og aftur í viðjum flokka eins og við gerðum forðum.